151. löggjafarþing — 24. fundur,  24. nóv. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[20:03]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, varðandi það hversu mikilvægt er að hafa fæðingarorlofslög sem miða að því að jafna rétt beggja foreldra til að taka fæðingarorlof. Þetta snýst annars vegar, eins og hér hefur verið rætt í dag, um réttindi barnsins til þess að njóta samvista við báða foreldra og mjög mikilvægt upp á tengslamyndun að gera eins og við vitum, en einnig það að jafna möguleika kynjanna til framgangs á vinnumarkaði. Það skiptir líka máli.

Ég hafði í byrjun ekki hugsað mér að koma upp í ræðu. Ég hlustaði á hæstv. ráðherra Ásmund Einar Daðason flytja frumvarp sitt og hlustaði með athygli og gladdist innilega vegna þess, eins og ráðherrann fór yfir, að þetta mál hefur verið lengi í undirbúningi. Endurskoðun núgildandi laga frá árinu 2000 hefur tekið marga mánuði og með aðkomu margra þannig að ég tel að við höfum nokkuð gott frumvarp í höndunum þó að eflaust megi lagfæra það eitthvað og verður vafalaust gert í meðferð hv. velferðarnefndar. Það eru margir á mælendaskrá, enn hafa ekki margir tjáð sig um málið í dag en ég geri ráð fyrir því og heyri það strax að það eru strax komnar ákveðnar ábendingar um hvernig hægt væri að bæta málið mögulega. Það verður áhugavert að fylgjast með þeirri vinnu og taka 2. umr. þegar nefndin hefur fjallað um málið.

Hæstv. ráðherra rifjaði upp sögu og tilurð núgildandi laga um fæðingarorlof sem þáverandi hv. þingmaður og hæstv. félagsmálaráðherra, Páll Pétursson heitinn, leiddi á þeim tíma. Þá var um mikið tímamótamál að ræða á heimsvísu, að jafna rétt beggja foreldra til töku fæðingarorlofs. Sú sem hér stendur hefur verið fulltrúi Framsóknarflokksins í utanríkismálanefnd síðastliðin sjö ár og mjög oft á fundum með erlendum þingmönnum koma jafnréttismálin til umræðu vegna þess að Ísland, þó að við getum enn bætt okkur verulega, er í fremstu röð í heiminum á sviði jafnréttis. Þá stöðu landsins má m.a. rekja til þessara laga frá árinu 2000 sem þáverandi hv. þingmaður og ráðherra, Páll Pétursson, stóð fyrir, mjög framsækið mál og til algjörrar fyrirmyndar. Ég verð að segja að ég er mjög montin að rifja þessa sögu upp, rifja upp þessa sögu míns flokks, Framsóknarflokksins, í ræðustól Alþingis, og ekki síst á þessum degi þegar ég er nýbúin að hlusta á hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, Ásmund Einar Daðason, leggja fram sitt frumvarp. Þetta er stór dagur og ekki bara hjá Framsóknarflokknum heldur náttúrlega hjá okkur öllum vegna þess að ég er sannfærð um það að nýframlagt frumvarp verður til mikilla bóta.

Við erum með frumvarpinu, eins og ég sagði áðan, að gera breytingar á lögum um að lengja fæðingarorlof foreldra úr níu mánuðum í 12 mánuði. Svo er gert ráð fyrir skiptingu. Nú eru það þrír mánuðir á hvort foreldri fyrir sig og þrír mánuðir sem fólk getur skipt á milli sín eftir aðstæðum, en við gerum ráð fyrir sex mánuðum á hvort en foreldrar geti tekið einn mánuð og ráðstafað honum sérstaklega þannig að annað foreldrið gæti tekið fimm og hitt sjö mánuði, sem er þó alltaf aukning miðað við það að núna eru þetta mögulega þrír og sex mánuðir, en yrðu fimm og sjö. Þetta er alltaf aukning. Þetta er alltaf til bóta. Þetta er lengdur tími.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir og hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason áttu í orðaskiptum og komu inn á leikskólapláss og mismunandi stöðu sveitarfélaga. Ráðherra talaði um að næsta skref væri að ná betur utan um það vegna þess að það er mjög mismunandi hvaða þjónustu sveitarfélög veita í þessum efnum, þ.e. að taka á móti ungum börnum. Það er auðvitað eitthvað sem þarf að púsla saman við þessar stóru breytingar. En einhvers staðar verðum við að byrja og þetta er eitt skref á leiðinni til þess að auka réttindi barna og bæta jafnrétti kynjanna og foreldra, sem geta náttúrlega verið af ýmsum kynjum eins og við vitum.

Mig langar áður en ég hætti, ég ætlaði ekki að tala lengi en maður talar alltaf lengur en maður ætlar sér, að nefna það hér að með frumvarpinu er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu í þeim tilvikum sem barnshafandi foreldri þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu fyrir áætlaðan fæðingardag í tengslum við nauðsynlega þjónustu vegna fæðingar barnsins. Ég var mjög ánægð að sjá þetta atriði í frumvarpinu vegna þess að á 148. þingi lagði sú sem hér stendur fram frumvarp ásamt þingflokki Framsóknarflokksins um fæðingarorlof þeirra sem væru í þessari stöðu, þ.e. byggju fjarri fæðingarstað og þyrftu að fara á fæðingarstað töluvert á undan settum fæðingardegi að mati sérfræðilæknis. Þessir aðilar þyrftu sem sagt ekki að hefja töku fæðingarorlofs þegar þeir færu á fæðingarstaðinn heldur myndi þessi tími bætast við orlofið. Frumvarpið náði ekki fram að ganga á sínum tíma þó að mikill velvilji og skilningur væri á því. En hæstv. ráðherra ákvað að taka það til sérstakrar skoðunar í þeirri vinnu sem fram fór í tengslum við undirbúning að framlögðu frumvarpi og ég er mjög ánægð að sjá þetta atriði birtast með þessum hætti í frumvarpi ráðherra.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta en óska hæstv. félags- og barnamálaráðherra innilega til hamingju og okkur öllum og hlakka til að hlusta á áframhald umræðunnar hér í þingsal í dag.