151. löggjafarþing — 25. fundur,  25. nóv. 2020.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Stór skref voru stigin í jafnréttismálum á Íslandi árið 2000 þegar þáverandi félagsmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, Páll Pétursson heitinn, lagði fram frumvarp um breytingar á fæðingarorlofi sem miðaði að því að jafna rétt foreldra til töku fæðingarorlofs. Markmið laganna var að tryggja barni samvistir við bæði föður og móður og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Þetta var bylting á sínum tíma og Ísland var fyrsta landið í heiminum til að fara þessa leið.

Sem Framsóknarkona er ég afar stolt af því að standa hér í dag og rifja þessa sögu upp því að hún sýnir hversu framsýnn Framsóknarflokkurinn hefur verið í gegnum tíðina, ekki síst á vettvangi félags- og jafnréttismála.

Í gær var síðan afar góð umræða um frumvarp núverandi félags- og barnamálaráðherra, Ásmundar Einars Daðasonar, en það frumvarp snýst um breytingar á núgildandi lögum. Mikil vinna hefur verið farið fram í þessa endurskoðun síðan 2019. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði. Þetta var stór dagur hjá okkur. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig verður sex mánuðir en foreldrum verður heimilt að framselja einn mánuð sín á milli. Því getur annað foreldrið tekið fæðingarorlof í sjö mánuði en hitt fimm.

Í gær komu fram ýmsar skoðanir á þessu máli en málið er gengið til hv. velferðarnefndar. Ég heyrði ekki betur en að allir þingmenn sem tóku þátt væru ánægðir með framlagðar breytingar, en þó má gera ráð fyrir að einstaka útfærslum verði mögulega breytt.