151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:25]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Líkt og ég kom inn á áðan náum við 85% jöfnun strax á næsta ári. Svo er viðbót á hverju ári næstu ár. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum samhliða þeim áformum að leita leiða til að ná fram frekari hagræðingu í rekstri þessara dreifiveitna, leyfa okkur að hugsa það aðeins upp á nýtt hvernig við rekum þær og hvernig við náum fram þessum markmiðum. Ef við gerum það þá horfir það öðruvísi við hvernig við náum 100% jöfnun, mögulega fyrr, með einhverjum öðrum leiðum en að bæta eingöngu viðbótarfjármunum á fjárlög. Með þessari leið núna, að bæta fjárlög, erum við komin með blandaða leið, annars vegar jöfnunargjald og hins vegar sérstök framlög á fjárlögum. En ef við ætluðum að fara úr 85%, sem eru áformin núna, í 100% þá kallar það á um 270 millj. kr. til viðbótar. Það er það sem upp á vantar. Hvort við förum þá leið, eins og er áformað í fjármálaáætlun, að bæta við á næstu árum til þess að ná því eða hvort við getum farið aðra leið — ég held að vinnan með Deloitte geti mögulega varpað frekara ljósi á það hvaða aðrar leiðir eru færar. Ég er þeirrar skoðunar að það hægt sé að horfa á kerfið og finna leiðir til að ná fram aukinni hagræðingu sem hægt væri að horfa á þetta verkefni í samhengi við.

Varðandi áform Landsnets ítreka ég það bara hér að þau eru nýkomin fram. Þau eru komin inn til Orkustofnunar. Stofnunin hefur samkvæmt lögum sex vikur til að fara yfir þau og fara yfir þau gögn sem þar koma með. Það ferli er bundið í lög og meðan svo er hef ég enga heimild til að grípa inn í það. En ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar að við eigum að leita allra leiða til þess að forðast frekari gjaldskrárhækkanir til notenda sem eru ekki (Forseti hringir.) í bestu færum eins og staðan er í dag til að taka við þeim. Fjárfestingarþörfin hjá Landsneti er mikil en þá er líka aftur spurning hvernig það er reiknað og hvernig kerfið er samsett (Forseti hringir.) og það er Deloitte að vinna með okkur.