151. löggjafarþing — 26. fundur,  26. nóv. 2020.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

336. mál
[15:32]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Hér kemur fram mikilvægt frumvarp frá hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem ég ætla að fara nokkrum jákvæðum orðum um. Það er gott að heyra t.d. hv. þm. Guðjón Brjánsson gleðjast yfir þessu, stjórnarandstaðan gleðst með okkur yfir framfaraskrefum. Ríkisstjórnin hefur ekki setið auðum höndum í orkumálum, hvorki á Covid-tímum né fyrir þá. Ég vil minna enn og aftur á orkustefnuna og orkuskiptin sem eru að fara fram og liðkun fyrir raforkuflutningum með nýju þingmáli um svokallaðar raflínunefndir þegar leggja þarf háspennulínur um fleiri en eitt sveitarfélag. Það eru allt framfaraskref sem við eigum að kinka kolli til. Því til viðbótar minni ég á þrífösun í dreifikerfi almennrar raforku og jarðstrengjavæðingu til þess að auka öryggi raforkunotenda í almenna kerfinu.

Þessi ríkisstjórn hefur líka sett sér skýr markmið um jöfnun raforkukostnaðar. Nú bætist enn eitt skrefið í átt til þeirrar fullu verðjöfnunar til almennra notenda sem við lítum til. Þetta frumvarp er þá komið fram því til staðfestingar. Annað skref er reyndar að finna í ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. Ég rek það ekki hér, það hefur hæstv. ráðherra gert, og fleiri skref eru reyndar í burðarliðnum.

Það þarf ekki að fjölyrða um gagnsemi og réttmæti þessara skrefa allra og ég vil nota þetta stutta tækifæri til þess að fagna vinnu ráðherra og ráðuneytis og ríkisstjórnar í þessu og enn fremur tilvonandi afgreiðslu hv. atvinnuveganefndar, sem ég veit að mun sjá til þess að þetta komist til afgreiðslu fyrr en síðar.