151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

svör við fyrirspurnum.

[15:50]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Sá sem hér stendur hefur langa og dapurlega reynslu af því að bíða eftir svörum frá ráðherrum og það er satt að segja alveg óþolandi að þurfa að sitja undir því. Um leið vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að hafa komið til liðs þegar illa stóð á í þessum efnum hvað þær fyrirspurnar varðaði. En nú virðist sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé búinn að taka upp ósið hæstv. félagsmálaráðherra um að svara ekki fyrirspurnum. Það eru tvær fyrirspurnir til hæstv. fjármálaráðherra sem liggja síðan í byrjun október, sem varða annars vegar sölu Landsbankans á fullnustueignum og hins vegar skil nokkurra fyrirtækja og einstaklinga á lánum til Íbúðalánasjóðs, sem virðast hafa verið tekin á vafasömum forsendum og var því skilað aftur heim í hérað. Ég bið hæstv. forseta að bregðast vel við og aðstoða okkur við að fá þessar upplýsingar fram.