151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[21:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykir vænt um að hafa sært hv. þingmann upp í andsvar með því að ræða sóknargjöld. Það er mér mikil ánægja að ræða sóknargjöld við hv. þingmann. Það sem hann ræðir um að hverri sókn sé gert kleift að innheimta sjálf er í sjálfu sér ekkert algalin hugmynd. En ég vil þó minna á með þeirri innheimtu sem við erum að tala um núna erum við kannski að jafna aðstöðu sóknanna sem eru mjög misjafnar úti um allt land. Og við skulum gá að því að úti um land þar sem erfiðara er að reka sóknir er gerð krafa um sömu þjónustu, þ.e. sama aðgang að sálgæslu o.s.frv., og gerð er í þéttbýlinu sem við búum í. Að því leyti til finnst mér það ekki algalið að við skulum, eins og hv. þingmaður orðaði það, úthluta þessu fé með yfirboði vegna þess að ég tel, eins og ég segi, að þetta jafni nokkuð aðstöðu sóknanna sem er mjög mismunandi. Það er eins og margt annað sem við gerum í þessum sal sem snýr að því að auka jöfnuð milli landsbyggðarinnar og þéttbýliskjarnans við suðvesturhornið. Þess vegna tel ég að þessi aðferð sem hér er notuð sé til þess fallin að skapa nokkurn jöfnuð og hjálpa þeim sóknum sem verst eru staddar.