151. löggjafarþing — 30. fundur,  2. des. 2020.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2021.

5. mál
[21:07]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég orðaði það hér áðan, og taldi alveg skýrt, að sóknir hafa verið að stækka. Kirkjum undir einstökum sóknum hefur fjölgað og í leiðinni er verið að fækka prestum. Þess vegna ættu sóknargjöldin kannski að geta nýst betur en áður og þess vegna var ekki vanþörf á því að hækka þau.

Í þessu eru náttúrlega líka augljós tækifæri fyrir lífsskoðunarfélög eða einhver önnur, Vantrú o.fl., til þess að hasla sér völl. Við höfum mjög nýlegt dæmi þar sem það að sleppa lausum möguleikum einstakra trú- eða lífsskoðunarfélaga til þess að innheimta gjöld fór alls ekki vel. Hér var sett á lífsskoðunarfélag eða trúfélag, sem vafi leikur á að hafi verið annað hvort, og ríkissjóður fjármagnaði starfsemi þess félags sem var afar fjölmennt og enginn veit hvað varð um peningana. Ef ég man rétt er þetta mál enn til rannsóknar þannig að það færir okkur líka heim sanninn um að það er aldrei of varlega farið í þessu. En auðvitað eru tækifæri í þessu og það vill svo til, eins og nýlegar tölur benda til, að hér eru lífsskoðunarfélög sem virðast blómstra nokkuð vel og fá þá væntanlega aukin sóknargjöld með fleiri meðlimum.