151. löggjafarþing — 31. fundur,  3. des. 2020.

sóttvarnarráðstafanir með sérstakri áherslu á bólusetningar gegn Covid-19 - forgangsröðun og skipulag, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:55]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa ágætu umræðu og greinargóða yfirferð hæstv. ráðherra. Ég get ekki orða bundist og tek undir orð þeirra sem hér hafa tekið til máls og hafa áhyggjur af afreksíþróttafólkinu okkar. Það er grafalvarleg staða. Það stendur frammi fyrir allt öðrum veruleika en við hin. Við getum misst af æfingum og okkur er engin vorkunn að fara út að ganga og gera styrktaræfingar til að hemja ístruna. Afreksíþróttafólkið okkar er á allt öðrum stað og ég vona að við finnum leiðir til þess að það komist sem fyrst til virkni.

Að því sögðu langar mig til að beina athyglinni að því að í fréttum Stöðvar 2 í gær kom Rúna Hauksdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, fram og sagði okkur að þegar lyfin kæmu þá kæmu þau öll í einu og við gætum strax byrjað að bólusetja. Ég skildi það sem hún sagði ekki betur en það. Á upplýsingafundi morgunsins talaði sóttvarnalæknir með örlítið öðrum hætti og vildi draga úr væntingum. Við erum að fá lyf, að mér skilst, frá þremur stofnunum. Dagsetningar eru misjafnar á því hvenær þau koma til okkar. Við erum kannski ekki búin að fá staðfestingu á því öllu.

Mig langar til að spyrja ráðherra: Hvaða væntingar er raunhæft að hafa um það sem við getum?Getur ráðherrann útskýrt misræmið í þessum málflutningi? Hvað þýðir það fyrir okkur? Er það rétt að ekkert eitt fyrirtæki muni uppfylla þörf okkar fyrir magn bóluefnis? Hvernig förum við með það? Hvernig leysum úr því og bara stillum okkur á réttan stað? Hvers er eðlilegt að vænta og hvernig eigum við að stíga inn í nýja árið? Þetta er svona lauflétt spurning til hæstv. ráðherra.