151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[21:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Ég var að reyna að hlusta hér uppi í þingflokksherbergi og ákvað að hlaupa niður til að fá aðeins nánari skýringu á tvennu. Hv. þingmaður talaði töluvert um 23. gr. frumvarpsins og mig langar bara að velta því upp hvort við skiljum hlutina eins. Ég skil 23. gr. þannig að þar sé verið að draga mjög úr eða koma í veg fyrir þann möguleika að nýta frekari orkumöguleika innan þjóðgarðsins. Þar er jafnframt tekið fram að ekki megi leggja nýjar háspennulínur á því svæði sem þjóðgarðurinn tekur til. Ég velti því fyrir mér hvort það sé hálfgerð skammsýni vegna þess að ef við ætlum að styrkja hringkerfið okkar þá þurfum við væntanlega að fara fram hjá þjóðgarðinum ef ekki má leggja línur yfir hann og mögulega getur það þá verið dýrara. Ég velti fyrir mér hvort ég skilji það rétt, að þingmaðurinn sé með sama skilning og ég á þessu. Við erum kannski ekki með sömu áherslur, hvort það sé gott eða slæmt að það megi ekki leggja línur þarna og þar með ekki reisa nýjar virkjanir innan þjóðgarðsins miðað við þessa grein.

Mig langar líka, ef tími er til, að velta upp flokkuninni sem talað er um á bls. 18 og 19, að þjóðgarðurinn taki upp alþjóðlega skilgreiningu frá alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN. II. flokkur þeirra gerir ráð fyrir að í rauninni megi ekki fara í neina orkunýtingu eða orkuvinnslu innan þjóðgarðsins. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður kannast við þessi náttúruverndarsamtök og þá þessa skilgreiningu á því hvað má og hvað má ekki innan þeirra svæða eða þjóðgarða sem taka upp skilgreininguna IUCN II.