151. löggjafarþing — 33. fundur,  8. des. 2020.

Hálendisþjóðgarður.

369. mál
[22:11]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Varðandi þátt sveitarfélaganna. Ég eyddi talsverðu púðri í að fara yfir það hér vegna þess að mér finnst vera svo mikill skilningur í umræðunni og málið einhvern veginn afflutt oft og tíðum. Það hefur ýtt undir áhyggjur, ég veit það. Kannski hafa ekki allir náð að kynna sér þetta nógu vel. En staða sveitarfélaganna er alveg gríðarlega vel völduð í þessu máli og þeim eru færð mikil völd. Þau eru í meiri hluta í umdæmisráðunum og þau eru í meiri hluta í stjórn þjóðgarðsins. Nýtingar- og verndaráætlun er ekki bindandi fyrir sveitarfélögin. Þau eru ekki neydd til að breyta skipulagi sínu þótt þar sé komin niðurstaða sem þau hefðu væntanlega staðið að og átt þátt í að búa út, en kannski eitthvert eitt sveitarfélag verið ósátt og þá getur það haldið sérstöðu sinni að því leyti. Menn þurfa að leysa úr því.

Ég átta mig ekki alveg á af hverju sveitarfélögin ættu að vera hræddari núna þegar málið er lagt svona fram af því að þetta er vægara en kerfisáætlun. Þetta er vægara en rammaáætlun. Það er búið að samþykkja að viss stefna á landsvísu verði einhvern veginn að binda okkur öll og þar með sveitarfélögin. Þau hafa ákveðinn tíma til að mæta henni o.s.frv. en þau verða að gefa eftir. Þar fór hið heilaga skipulagsvald fyrir lítið, en hér er það varðveitt. Varðandi umferð og annað slíkt og aðgengi að þjóðgarðinum þá leggjum við mikla áherslu á það í tillögum okkar og það gerir frumvarpið einnig. Það er meðal annars tilgangurinn með þessu að tryggja gott aðgengi að þjóðgarðinum þannig að landsmenn og ferðamenn geti notið hans, en að hægt sé að stýra þeirri umferð og passa upp á að hún fari þannig fram að hún valdi ekki neinum spjöllum. Ég sé ekkert hættulegt í þessari 18. gr. nema að það sé þá að 3. mgr. byrji á orðunum: „Akstur vélknúinna ökutækja utan vega í þjóðgarði er bannaður.“ Er einhver á móti þessu? Ég hef spurt: Hvar er þessi ágreiningur? Hvar er þessi núningur t.d. á ferðinni í Vatnajökulsþjóðgarði? Oftast kemur upp úr dúrnum að það er aðeins eitt deilumál sem situr í mönnum og það er það að ekki er leyft að keyra í gegnum Vonarskarð.