151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Nú tel ég upplagt að laga texta lagsins um það sem ekki má:

Það má ekki halda jólaboð,

það má ekki drekka saman jólamjöð,

það má ekki fara á skemmtun og hitta góða vini,

og það þarf kannski að taka sýni.

Þetta sóttvarnafólk er svo skrýtið,

það er alltaf að banna allt.

Þó maður geri ekki neitt,

það er alltaf að banna allt.

[Hlátur í þingsal.]

Hæstv. forseti. Á morgun taka gildi breyttar sóttvarnareglur og þær tilslakanir sem einhverjir vonuðust eftir verða ekki að veruleika. Við þurfum sem sagt að búa okkur undir öðruvísi jól. Það er tvennt í stöðunni, annaðhvort að einhenda sér í reiði og fýlu eða velja þann kostinn að gera það besta úr stöðunni.

Við lifum í veröld þar sem sprittbrúsi í vasa er viðurkenndur staðalbúnaður og gríma er hluti af grunnbúnaði. Einhvern tímann taldist svona útbúið fólk til hóps sem fáir vildu kenna sig við. En nú er öldin önnur. Einn daginn munum við öll hugsa til baka til jólanna 2020 og segja komandi kynslóðum sögur frá þessum óvenjulegu jólum og hvernig við gerðum okkar besta. Eflaust verður hægt að hlæja að jólaboðunum sem haldin voru í gegnum fjarfund, já eða spilakvöldum eða það getur verið bara eitthvað allt annað.

Við erum hvött til að velja jólavini. Þegar fjölskyldur búa ekki í sama landshluta getur verið sniðugt að búa til jólakúlu með vinum eða nágrönnum. Þannig kynnumst við kannski nýjum jólahefðum sem vert er að taka upp. Erfiðast verður þetta þó fyrir einstaklinga sem eru í viðkvæmum hópum. Hugsa má um nýjar leiðir til þess að gleðja ættingja sem þurfa að halda sig til hlés heilsu sinnar vegna.

Njótum saman rafrænna samverustunda. Þær eru öðruvísi, en til þess að við getum látið þetta ganga upp þurfum við líka að halda öðruvísi jól.