151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Fyrir um hálfum mánuði átti sá sem hér stendur orðaskipti við hæstv. fjármálaráðherra um vanda þeirra sem tekið hafa lán hjá Íbúðalánasjóði, lán sem bera uppgreiðslugjald. Margt hefur gerst síðan þessi orðaskipti áttu sér stað. Fallinn er dómur í héraðsdómi sem segir að þessi uppgreiðslugjöld séu ólögleg og hefur ÍL-sjóður áfrýjað til Landsréttar. Þarna er um að ræða 12.000 lán, virk og óvirk. 8.500 manns hafa greitt upp sín lán og borgað 16–17% í uppgreiðslugjald, þ.e. af 20 millj. kr. uppgreiðslu eru það í kringum 3,2–3,5 milljónir, sem er algerlega óþolandi. Nú eru 3.300 lán enn þá útistandandi og við getum rétt ímyndað okkur hvernig því fólki, sem ekki hefur ráðið við að borga upp lánin, gengur að selja íbúðir sínar með slíkum lánum á. Ég held að það sé ekki mikil eftirspurn eftir því.

Það ríður því á, herra forseti, að beðið verði um flýtimeðferð fyrir Landsrétti, vegna þess að ekki einasta er þetta óþolandi bið fyrir þessa 12.000 eða þessa 3.300 sem enn eru með lán, og þá 8.500 sem greitt hafa upp, heldur er þetta náttúrlega líka stórt atriði fyrir ríkissjóð, vegna þess að þegar og ef þessi dómur verður staðfestur mun þetta kosta ríkissjóð í heild ríflega 8 milljarða kr. að dómi Viðskiptablaðsins í gær.

Herra forseti. Ég beini því til hæstv. fjármálaráðherra að hann vindi bráðan bug að því að þetta mál verði rekið fyrir Landsrétti eins fljótt og verða má til þess að úrslit fáist í það sem fyrst.