151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

um fundarstjórn.

[15:59]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það er sjálfsagt að verða við því. Já, það voru þau ummæli þegar hv. þingmaður tjáði þá meiningu sína að það væri sérstakur vilji eða markmið einhverra að vísa fólki á framfærslu sveitarfélaga og fyrir það ættu menn að hafa skömm. Það fannst forseta óþarflega djúpt í árinni tekið og gerði athugasemdir af því tagi sem eru alsiða þegar forseta finnst að menn mættu gæta betur orða sinna. Það er rétt, sem hv. þingmaður segir, að sá sem hér á í hlut og nú talar hefur ósjaldan fengið athugasemdir af því tagi og ekki farið af hjörunum yfir því.