151. löggjafarþing — 34. fundur,  9. des. 2020.

utanríkisþjónusta Íslands.

19. mál
[20:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Hæstv. forseti. Það er komið að lokum þessa máls sem kallað er sendiherramálið milli manna, eins og fram hefur komið, þó að það heiti nú annað. Það snýst að stærstum hluta um að setja þak á fjölda sendiherra í utanríkisþjónustu Íslands. Þó að ég sé á móti þessu máli, og muni koma nánar inn á það á eftir, verð ég að hæla nefndinni fyrir að hafa lagað það. Það gerir málið ekki endilega nógu gott til að ég samþykki það og þess vegna hef ég sett þetta nefndarálit saman og fer aðeins yfir það. Ég sagði strax og þetta mál kom fram að mér þætti það frekar illa unnið og mér finnst vanta á það þann gæðastimpil sem er á flestu sem kemur frá utanríkisráðuneytinu. Auðvitað kom staðfesting á því að málið hefði meira og minna verið unnið annars staðar, en engu að síður er það komið hingað inn.

Ég bendi á það í nefndarálitinu að ég tel málið óþarft. Mér finnst óþarfi að setja þak á fjölda sendiherra. Ástæðurnar fyrir því eru kannski tvær. Almennt hefur verið farið mjög sparlega með þessar skipanir, kannski eitt tilvik sem hægt er að segja eitthvað annað um. Í öðru lagi, og það er grundvallarmunur á skoðun minni og flytjenda þessa máls, held ég að með því að setja þak á fjölda sendiherra sé verið að takmarka og draga úr sveigjanleika utanríkisþjónustunnar. Nú á að festa í lög ákveðinn fjölda sem er 36 — ætli sendiherrar séu ekki 39–40 í dag, eitthvað svoleiðis, kannski 41, ég man nú ekki alveg þá tölu — og það að festa þá tölu, 36, inn í lögin dregur úr sveigjanleika og við þurfum mögulega að skipa sendiherra í ákveðin verkefni eða fyrir ákveðna málaflokka o.s.frv. Ég þekki svo sem vel það viðhorf sem kemur fram í frumvarpinu. Maður hefur heyrt það oft áður að það séu of margir sendiherrar, of margar sendiskrifstofur o.s.frv. En ég er algerlega ósammála þeirri nálgun og þar af leiðandi ósammála því að málið fari hér í gegn eins og það er lagt upp. Það er búið að setja kvóta á þetta og kannski þarf að útskýra betur hvers vegna þessi tala er sú sem allt snýst um, hvers vegna það eru akkúrat fimm sem ráðherra getur skipað án auglýsingar — af hverju ekki þrír eða sex? — og líka af hverju hægt er að lána þennan titil fimm sinnum, á fimm sendifulltrúa. Það hefði kannski verið gott að skýra þetta betur. Ég held nefnilega að fjöldinn eigi að endurspegla þau verkefni sem eru fyrir hendi. Það getur vel verið að menn horfi þannig á hlutina, og það er bara allt í lagi, það þarf ekkert endilega að gagnrýna það, að verkefnin verði ekkert fleiri, að það þurfi ekki fleiri en 36 sendiherra. Það getur vel verið að menn séu búnir að komast að því, en mér finnst þetta draga úr sveigjanleikanum.

Ég verð líka að nefna, og ég taldi ástæðulaust að fara yfir það í nefndarálitinu, að í þeim umsögnum sem bárust, bæði við eldra frumvarpið og það nýrra — þó að málið hafi breyst aðeins þá eiga flestar af þeim umsögnum enn við, enda hafa þeir sem skilað hafa inn umsögnum í seinni atrennu vísað í fyrri umsagnir — þá voru sjö jákvæðir en 57 gerðu athugasemdir. Ég vil kannski ekki endilega segja að þær hafi allar verið neikvæðar en þær voru alla vega ekki jákvæðar, það voru athugasemdir sem fólu í sér gagnrýni.

Það hefur líka vakið athygli mína — og ég man ekki eftir að hafa séð það áður, ég ætla ekki að fullyrða að það hafi ekki gerst — að nokkrir af reynslumestu sendiherrum þjóðarinnar töldu ástæðu til að koma opinberlega fram og gagnrýna frumvarpið mjög harkalega, gagnrýna harkalega þá vegferð sem haldið er í. Auðvitað er það alltaf erfitt fyrir embættismenn eða starfsmenn ráðuneytanna að koma opinberlega fram og gagnrýna og ég ætla að freistast til að ætla að þeir sem komu fram tali fyrir hönd fleiri. Það er auðvitað bara mín tilfinning og ég veit að sjálfsögðu ekkert um það. Ég veit að þetta verður örugglega rekið ofan í mig af því að ég get ekki rökstutt þetta, en þetta er svona tilfinning. Hluti af því sem gagnrýnt er er þessi skortur á sveigjanleika.

Hæstv. forseti. Ég skil ekki þörfina fyrir þetta frumvarp. Það er í sjálfu sér ekki mikill sparnaður sem hlýst af því að fækka sendiherrum. Laun sendiherra á heimavelli við Rauðarárstíg eru ekkert miklu hærri en flestallra embættismanna, skrifstofustjóra eða eitthvað slíkt. Hins vegar hækka þeir mjög í launum og fá betri laun þegar þeir fara utan og það er engin spurning, og er ýmislegt sem telst þar til. Það er vissulega huglægt hvað er málefnalegt og hvað ekki. Ég held að það sé samt vert að fara vel í gegnum þá gagnrýni sem barst. Ég tek undir með þeim sem hafa sagt að nær hefði verið að setja fólk í að endurskoða heildarlögin. Ég viðurkenni að það er eitt af því sem maður hefði sjálfur átt að gera þegar maður hafði tækifæri til þess. Það er miður að það var ekki gert. En ég held að það sé engin spurning að full þörf er á því. Þar af leiðandi er ég með ákveðna breytingartillögu sem ég fer yfir á eftir varðandi það.

Herra forseti. Ég hef ekki lesið upp nefndarálit mitt frá upphafi til enda, ég tel það í sjálfu sér óþarft. Fólk er fullfært um að kynna sér það, frumvarpið og þessi álit, og mynda sér sjálft skoðun á því hvort þetta er rétt eða rangt eða hvort þetta hefði mátt bíða. Ég hef ekki enn séð tilganginn með þessu, það kann að vera þröngsýni. Það er mjög mikilvægt að við munum að íslenska utanríkisþjónustan er smá, hún er fámenn. Mörgum kann að finnast það eðlilegt af því að landið er lítið og þjóðin fámenn. Ég hef verið þeirrar skoðunar að einmitt þess vegna þurfum við á stærri og öflugri utanríkisþjónustu að halda en er í dag þó svo að það fólk sem sinnir þessum verkefnum standi sig ótrúlega vel. Ég viðurkenni það alveg að áður en ég fór í þennan bransa, skulum við segja, hafði ég svolítið aðrar skoðanir og hugmyndir um þjónustuna en ég hef í dag.

Auðvitað er eðlilegt að embættismenn eða starfsmenn utanríkisþjónustunnar, sendiherrar, hafi áhyggjur eða hafi skoðanir á því hvernig starfsumhverfi þeirra þróast. Það er ekkert óeðlilegt við það. Ég held hins vegar að það sé allt gert af góðum hug þegar menn horfa á starfsumhverfi sitt, starfsöryggi og þess háttar, ég geri engar athugasemdir við það. Ég hef sjálfur lýst því yfir og sagt að mér finnist eðlilegt að utanríkisþjónustan sé blandaður vettvangur af sérfræðingum, þess vegna viðskiptamönnum eða stjórnmálamönnum, en hlutföllin eiga alltaf að vera þau að mínu viti að þeir sem koma innan úr þjónustunni séu stærsti hluti þeirra sem eru í þessum störfum. Það getur því vel verið að það sé skynsamlegt að vera með eitthvert viðmið, en hafa það ekki bundið í lög, um það hversu margir standa utan við þjónustuna. Mér finnst allt í lagi að velta því fyrir sér en ég tel rangt að festa það í lög, það er alla vega alltaf mikill minni hluti sem ætti að koma þannig inn. Ef við horfum bara á verkefnið þá er það vitanlega þannig að verkefni utanríkisþjónustunnar eru erlendis. Það er verið að gæta hagsmuna þjóðarinnar, fyrirtækja, einstaklinga, og hjálpa til þegar menn lenda í vandræðum. Það hefur sýnt sig undanfarið. Utanríkisþjónustan brást vel við og sinnti gríðarlega erfiðum og miklum verkefnum þegar Covid-faraldurinn skall á, og hefur staðið sig gríðarlega vel. Það eru alþjóðasamningar sem utanríkisþjónustan kemur að með þeim fagráðherrum og fagráðuneytum sem bera ábyrgð á þeim. Það eru alþjóðasamningar og alþjóðasamskipti. Það þarf að gæta hagsmuna sem skipta okkur gríðarlega miklu máli, hafréttarsamningur. Það eru loftferðir o.s.frv. Allt þetta skiptir Ísland mjög miklu máli og mestu skiptir fyrir íslenska þjóð, sem er fámenn og úti í miðju Atlantshafi, yfirráð yfir náttúruauðlindum, hún byggir samfélag sitt á því að geta varist og geta tryggt að alþjóðleg lög séu virt hvarvetna. Það er eitt af stóru hlutverkum utanríkisþjónustunnar. Það er mjög mikilvægt að við höldum áfram og ég held reyndar að menn hafi staðið sig ágætlega í því að kynna starfsemi utanríkisþjónustunnar og sýna og segja frá því sem verið er að gera. Þessi þjónusta er í raun ómetanleg.

Virðulegur forseti. Að lokum er í minnihlutaálitinu enn og aftur farið í gegnum gallana á þessu og farið yfir skoðun þess sem flytur þetta mál. Ég geri mér grein fyrir því að þetta mál verður samþykkt hér í þingsal og legg þar af leiðandi ekki til að málinu verði hafnað eða vísað frá eða eitthvað slíkt. Ég flyt hins vegar breytingartillögu um að gildistímanum verði frestað. Ég veit að á því eru ákveðnir gallar. Það er eðlilega ekki markmið ráðherrans að fresta gildistökunni. Maður verður að setja sig í þau spor að eðlilega vill ráðherrann að málið taki gildi sem fyrst. Í ljósi þeirrar miklu gagnrýni sem kom á málið, í ljósi þess að kallað er eftir heildarendurskoðun á lögunum, í ljósi þess að það eru nokkrir mánuðir í kosningar og málið er umdeilt, held ég þó að skynsamlegt væri að fresta gildistökunni en setja um leið í gang endurskoðun á heildarlögum um utanríkisþjónustu Íslands með það að markmiði að koma fram með ný lög í upphafi nýs þings. Takist ekki að samþykkja eða ganga frá þeim lögum fyrir áramótin 2021–2022 þá öðlist þessi lög gildi. Ég er jafn mikið á móti lögunum en það sem vakir fyrir mér er að reyna að koma fram með einhverjar málefnalegar tillögur um hvernig leysa megi þennan ágreining og hefja þá vinnu. En auðvitað er ekkert sem kemur í veg fyrir að hæstv. ráðherra setji í gang vinnu við að endurskoða heildarlög utanríkisþjónustunnar. Hvort sem mín tillaga verður samþykkt eða ekki þá vona ég bara að það verði gert því að það er full ástæða til þess. Ég hefði talið að hitt væri áferðarfallegra, en hér í þessum sal erum við ekki endilega að greiða atkvæði um fegurð.