151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[13:43]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér leggur meiri hlutinn til 197 millj. kr. tímabundna hækkun til öryggis- og varnarmála. Í nefndarálitinu kemur fram að með því eigi að efla netvarnir og varnir gegn fjölþáttaógnum á Íslandi og það er tími til kominn. Kórónuveiran hefur m.a. kennt okkur að við erum orðin verulega háð því að nýta okkur tækni og fjarskipti í daglegu lífi, kannski enn frekar en áður.

Með þessu er líka lagt til að við tökum þátt í öndvegissetrinu í Tallinn í Eistlandi og öndvegissetrinu í Helsinki þar sem við erum nú eina norræna ríkið sem tökum ekki þátt og eina ríki Atlantshafsbandalagsins. Þar munum við öðlast mikilvæga reynslu og þekkingu sem vel getur nýst hér á landi til framtíðar.