151. löggjafarþing — 36. fundur,  11. des. 2020.

fjárlög 2021.

1. mál
[16:04]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tek til máls undir lið 32.40, en þar eru nokkrar tillögur sem lúta að félagslegum aðgerðum vegna Covid, til að styðja við atvinnuleitendur, lífeyrisþega, barnafjölskyldur og félagslega viðkvæma hópa. Hér eru mörg mikilvæg og góð verkefni á blaði, m.a. um 20 millj. kr. framlag til Pieta-samtakanna og framlag til Rauða krossins og Landssambands eldri borgara. En síðast en ekki síst er hér 30 millj. kr. framlag til Art-verkefnisins sem er úrræði fyrir börn og unglinga með tilfinninga- og hegðunarvanda. Þetta úrræði hefur gefið mjög góða raun og hefur verið boðið upp á það í grunnskólum og leikskólum víða um land en á Suðurlandi sérstaklega. Það hefur sýnt sig að þetta úrræði virkar. Hér erum við að grípa snemma inn í til að byggja börn upp snemma á lífsleiðinni. Ég óska þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) láti okkur ekki standa í þeim sporum á hverjum einasta vetri að koma hér með breytingartillögur sem lúta að því að fjármagna þetta verkefni.