151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta framsögu. Nú stóð ég ekki að afgreiðslu málsins í nefndinni og stend ekki að því áliti sem hér liggur fyrir. Það sem vakti athygli mína á sínum tíma þegar var verið að vinna þetta mál í nefndinni var að aðeins einn heilbrigðisstarfsmaður kom til fundar við nefndina. Þess vegna m.a. tók ég ekki þátt í því að afgreiða þetta mál. Ég taldi að okkur vantaði meiri upplýsingar úr þeim geira, þ.e. ekki einungis frá félagasamtökum og öðrum heldur að fá fleiri heilbrigðisstarfsmenn á vettvang til að skýra þetta fyrir okkur. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún viti hvers vegna ekki komu fleiri heilbrigðisstarfsmenn til liðs við nefndina í þessu máli.