151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[16:48]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Allt er þetta gott og blessað en nú eru nefndarfundir náttúrlega til þess að nefndarmenn geti aflað upplýsinga. Það taldi ég t.d. í þessu tilfelli ekki fullreynt og mun því leggja til að þetta mál verði kallað til nefndar aftur milli 2. og 3. umr. þannig að fleiri verði kallaðir til til að fara yfir málið.

Ég er ekki að gera lítið úr því að í þessum þverfaglega hópi hafi verið barnasálfræðingur og nokkrar tegundir af læknum, alls ekki. En það hjálpar mér í sjálfu sér ekki neitt sem nefndarmanni til að taka afstöðu til málsins nema ég heyri frekari rök og frekari skýringar á því hvers vegna þetta frumvarp ætti að samþykkjast í því formi sem það er núna. Mér finnst þetta einfaldlega mjög stórt mál og ég hefði viljað vinna það betur. Þess vegna hef ég óskað eftir því að það komi aftur fyrir nefndina.