151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:11]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að þingmenn Miðflokksins hafa áhyggjur af þessu máli, að það sé ekki nægilega vel unnið og það vanti nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að taka meðvitaða ákvörðun um málið. Í gögnum málsins, bæði á heimasíðu þingsins og í frumvarpi til laga og svo í nefndarálitinu, koma fram mikilvægar upplýsingar sem ég held að þingmenn Miðflokksins hefðu gott af því að kynna sér svo að þeim verði svolítið rótt. Það kemur t.d. fram á bls. 9 í frumvarpinu í hverju samráðið fólst. Það hafa þó nokkrir þingmenn, þar á meðal framsögumaður málsins, hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, farið yfir vinnu starfshópsins sem skilaði af sér 2020 og frumvarpið er byggt á þeirri vinnu. Í starfshópnum sátu okkar fremstu sérfræðingar á þessu sviði. Á bls. 9 er talið upp hvers lags sérfræðingar þetta voru.

Varðandi meintan skort á umsögnum, m.a. frá Læknafélagi Íslands, þá sést á heimasíðu þingsins hverjir fengu beiðni um að skila umsögn. Þar á meðal var Læknafélag Íslands. Félagið skilaði ekki umsögn en eins og fram hefur komið átti það þátt í samningu þessa frumvarps og taldi að sjónarmið þess væru komin fram í frumvarpinu eins og það er lagt fram. Þannig að ég held að þetta mál sé ansi vandað og að baki því eru okkar fremstu sérfræðingar.

Hvað varðar tölfræðina ætla ég að koma að því í seinna andsvari.