151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:15]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nefndi bls. 9 í frumvarpinu og ég ætla bara að leyfa mér að telja upp hvaða sérfræðingar komu að og voru í þessum starfshópi. Það var barnaskurðlæknir, barnainnkirtlalæknir, barnasálfræðingur, fulltrúi Intersex Íslands, fulltrúi Samtakanna '78, kynjafræðingur, siðfræðingur og tveir lögfræðingar, annar með sérþekkingu á réttindamálum barna en hinn á mannréttindum. Formaður hópsins var skipaður af ráðherra og með hópnum starfaði sérfræðingur í forsætisráðuneytinu. Með samsetningu hópsins var leitast við að tryggja víðtækt samráð og nauðsynlega aðkomu sérfræðinga og fulltrúa hagsmunasamtaka að vinnu um fyrirhugað ákvæði.

Þannig er það. Maður veit náttúrlega ekki hvað fólk er að hugsa eða hvað því finnst ef það sér ekki ástæðu til að senda inn umsögn um mál sem eru til meðferðar hjá þinginu. Engum er bannað að senda umsögn. Ég trúi þingmanninum þegar hann segist hafa leitað eftir upplýsingum frá Læknafélaginu en ég var að láta kanna það áðan og það barst ekki umsögn frá félaginu. Hún kann að hafa farið á vitlaust netfang eða eitthvað slíkt, ég get ekki fullyrt það.

Varðandi skort á tölfræði, eins og þingmaðurinn fór yfir í ræðu sinni áðan, þá vitum við að það eru alltaf nokkur börn á ári sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og ég verð að segja að að mínu mati skiptir það ekki máli hvort þau séu fimm eða 50. Ég geri ráð fyrir því að þingmaðurinn sé sammála mér með það að nauðsyn sé á lagasetningu sem þessari, en ég átta mig á hvað þingmaðurinn átti við. Hann vill kannski hafa málið ítarlegra og hann situr í fjárlaganefnd og er orðinn vanur að eiga við tölur og finnst kannski betra að hafa þær fyrir framan sig til að vera rórra með þetta allt saman.