151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[18:44]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson fór hér yfir ákveðin atriði málsins og sérstaklega þau sem hann hefur áhyggjur af og er óviss með. Hann nefndi það í fyrri hluta ræðu sinnar að hann hefði áhyggjur af því að ekki heyrðist frá þeim sem væru mögulega ánægðir með að hafa farið í aðgerðir af þessu tagi og velti því fyrir sér hversu margir hefðu verið óánægðir, var aðeins að velta þessu upp. Eins og ég nefndi hér í andsvari við hv. þm. Birgi Þórarinsson, samflokksmann hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, byggist frumvarpið á vinnu starfshópsins sem skilaði 2020. Ég fór yfir það hér áðan, og það kemur einnig fram í gögnum málsins, hvaða sérfræðingar sátu í þeim starfshópi. Meðal annars voru þarna fulltrúar frá Intersex Ísland og Samtökunum '78. Ég gef mér að í þessum samtökum báðum séu annaðhvort aðstandendur eða einstaklingar sem hafa mögulega fæðst með ódæmigerð kyneinkenni. Ég myndi því halda að þar sem þessir aðilar höfðu beina aðkomu að samningu frumvarpsins þá búi þeir yfir upplýsingum sem nýttar hafa verið, ég held að við getum verið nokkuð viss um það. Maður hefur svo stuttan tíma í þessum andsvörum en hvað varðar eineltisumræðuna þá þurfum við náttúrlega öll að temja okkur meira umburðarlyndi gagnvart náunganum og einhvers staðar verður að byrja. Ég held að það séu kannski skilaboðin sem við ættum m.a. að senda frá okkur í þessari umræðu, en ég kem aftur í andsvar.