151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:12]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Bergþór Ólason viðraði hér áhyggjur sínar af málsmeðferð nefndarinnar. Um það vil ég segja að þeir aðilar sem hv. þingmaður nefndi, annars vegar Læknafélag Íslands og hins vegar landlæknisembættið, þeim aðilum og fleirum var send umsagnarbeiðni á sínum tíma en þeir sáu ekki tilefni til þess að senda inn umsögn og það leikur enginn vafi á því, eins og hv. þingmaður sagði áðan, hvort Læknafélag Íslands hafi sent umsögn. Þegar heimasíða Alþingis er skoðuð og flett er upp á málinu er hægt að sjá feril málsins og gögn málsins, m.a. hverjir fengu umsagnarbeiðnir og hverjir sendu inn umsagnir um málið. Það er því engum vafa undirorpið. (Gripið fram í.)Þar af leiðandi er meðferð málsins mjög eðlileg.

Ég vil einnig nefna að Miðflokkurinn, þingflokkur Miðflokksins, á fulltrúa í nefndinni og hefur alltaf átt og nefndarmönnum er frjálst að biðja um að ákveðnir aðilar komi fyrir nefndina og ræði við hana. Þessir aðilar komu ekki fyrir nefndina. Ég spyr því hv. þingmann hvort Miðflokkurinn hafi beitt sér fyrir því í nefndinni að fá þessa aðila á fund nefndarinnar.

Það hefur einnig komið fram á nefndarfundum að sérfræðingar á þessu sviði höfðu ákveðnar athugasemdir við frumvarpið eins og það var lagt fram 2019. Frumvarpið eins og það liggur fyrir núna er afrakstur mikillar vinnu (Forseti hringir.) okkar fremstu sérfræðinga á þessu sviði, þar á meðal fjölmargra lækna. (Forseti hringir.) Ég fer yfir það betur á eftir og þetta kemur einnig fram í gögnum málsins.