151. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[19:17]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á blaðsíðu níu kemur fram hvaða sérfræðingar voru í skipuðum starfshópi. Það voru barnaskurðlæknir, barnainnkirtlalæknir, barnasálfræðingur, fulltrúi frá samtökunum Intersex Ísland, fulltrúi Samtakanna ´78, kynjafræðingur, siðfræðingur og tveir lögfræðingar, annar þeirra með sérþekkingu á réttindamálum barna en hinn á mannréttindum. Svo voru einnig lögfræðingar sem störfuðu á vegum forsætisráðuneytisins með hópnum. Ég held ég geti fullvissað hv. þingmann um það að við þingmenn, þó að við séum sum merkilegur og mikilvægur hópur og eflaust gáfuð og vel að okkur í flestu, eða þannig, þá höfðum við enga ástæðu til að vera í þessum starfshópi.

Hins vegar er málið komið til okkar núna byggt á atriðum sem þessir sérfræðingar bentu á. Og það sem hv. þingmaður hefur mestar áhyggjur af, ég heyri það, er að þetta frumvarp sé hættulegt börnum, að börn fái ekki nauðsynlega læknisþjónustu. Ég held að ég geti róað hv. þingmann með því að svo er ekki. Það kemur fram í málinu að þegar um slík tilfelli er að ræða, ef frávikin eru þannig að þau ógni lífi og heilsu barna þá fái þau að sjálfsögðu nauðsynlega læknisþjónustu. Ég held að þeir sem eru fulltrúar í þessum starfshópi á vegum Intersex Ísland og Samtökunum ´78 hafi mjög líklega mun meiri þekkingu og skilning á því hvernig er að fæðast með ódæmigerð kyneinkenni heldur en við sem hér sitjum, nema mögulega einhver okkar hafi fæðst með ódæmigerð kyneinkenni. Við vitum það náttúrlega ekki vegna þess að yfir þessum málaflokki hefur ríkt mikil leynd og skömm. Þetta frumvarp er kannski liður í því að ræða þessi mál og komast yfir skömmina (Forseti hringir.) og dómhörkuna sem þessu fylgir (Forseti hringir.) með meira umburðarlyndi og skilningi.