151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Herra forseti. Norrænt samstarf er hornsteinn utanríkisstefnu Íslands. Norrænt samstarf er ekki bara utanríkismál heldur hefur það mikla þýðingu fyrir allan almenning í landinu og löndunum. Skemmst er að minnast allra norrænu félaganna sem starfrækt eru um land allt síðan snemma á síðustu öld, vinarbæjasamskipti sveitarfélaga, kóramót, íþróttamót o.s.frv.

Afnám stjórnsýsluhindrana er rauði þráðurinn í starfi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar og liður í að gera svæðið að samþættast svæði heims, þ.e. að íbúar Norðurlanda geti farið óhindrað milli landanna, stundað nám og störf og öðlist réttindi óháð því í hvaða landi það er, t.d. rétt á opinberri þjónustu og starfsréttindi, svo eitthvað sé nefnt. Þrátt fyrir ótvíræða gagnsemi norræns samstarfs og jákvæðni gagnvart því þá hefur sú sem hér stendur rekið sig á að þingmenn, blaðamenn og aðrir sem fjallar reglulega um norræn mál með einum eða öðrum hætti þekkja starfið ekki nógu vel. Þeir átta sig ekki á hlutverki Norðurlandaráðs annars vegar og norrænu ráðherranefndarinnar hins vegar og hvaða hlutverki t.d. samstarfsráðherrar Norðurlandanna gegna o.s.frv. Umfjöllun um norræn málefni er kannski almennt of lítil. Það á ekki síst við um Alþingi Íslendinga. Við ættum að fjalla oftar um norræn málefni hér í þessum sal. Við sem tökum þátt í norrænu samstarfi eigum líka að vera duglegri að segja frá því sem við erum að gera, bæði hér og annars staðar.

Forseti sænska þingsins hefur viðrað þá tillögu í sænska þinginu að koma á formlegu sambandi fastanefnda þjóðþinga Norðurlandanna. Áhugaverð hugmynd að mínu mati og það verður spennandi að sjá hvort hún fái hljómgrunn. Sú sem hér stendur hefur gegnt hlutverki forseta Norðurlandaráðs 2020 með varaforsetann hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur sér við hlið. Okkar hlutverkum lauk í morgun á síðasta fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs, en Danmörk tekur við formennsku ráðsins um áramót. Þá mun Íslandsvinurinn Bertel Haarder leiða Norðurlandaráð 2021.