151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

ráðstöfun útvarpsgjalds.

397. mál
[17:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Mig langar að leggja aðeins orð í belg um þessa ágætu tillögu sem við Miðflokksmenn stöndum að og varðar fjármögnun Ríkisútvarpsins að því leyti til að við leggjum til að almenningi verði sjálfum falin ábyrgð á því hvar hann vill að peningar hans sem fara í fjölmiðlun komi niður. Eins og við vitum er í gangi nauðungaráskrift að einum fjölmiðli. Það vill þannig til, herra forseti, að ég hygg að hvergi í umhverfi okkar hafi orðið jafn mikil þróun undanfarin ár og áratugi og í miðlun efnis, í fjölmiðlun. Við sjáum það bara alls staðar í hinum ólíku miðlum, svo sem í heimabrúki þar sem vínillinn hefur vikið fyrir CD sem hefur svo vikið fyrir streymisveitum. Það má segja að einn maður með sendi sé fjölmiðill. Við verðum vör við þetta núna þegar sú ríkisstjórn sem nú situr hyggst jafna aðstöðumun fjölmiðla á Íslandi með því að gera þá alla að ríkisfjölmiðlum, þ.e. ef þeir uppfylla ákveðin skilyrði.

Það er í sjálfu sér ótrúlega athyglisvert að eiginlega megi segja að Ríkisútvarpið hafi að mörgu leyti alveg frítt spil. Það virðist ekki þurfa að velta þar við neinum steini kostnaðarlega. Ég gagnrýndi það fyrir nokkrum árum að þá voru, held ég, 10 eða 12 framkvæmdastjórar hinna ýmsu sviða hjá Ríkisútvarpinu sem þá hafði rétt rúmlega 200 manns í vinnu plús verktaka sem síðar hefur komið í ljós að voru væntanlega ráðnir ólöglega. Það hefur jú komið í ljós á allra síðustu árum að meðan þessi þróun fjölmiðla heldur áfram — og það er enginn endir á því í augsýn — heldur Ríkisútvarpið að grunni til áfram að vera í svipuðu umhverfi, svipuðu boxi, og 1930, plús Rás 2, plús sjónvarp. Að öðru leyti er svo sem engin stórkostleg þróun í rekstri Ríkisútvarpsins nema hvað menn ákváðu fyrir nokkrum árum, illu heilli, að breyta fyrirtækinu í ohf. Og eins og á við um fleiri ohf. hefur eiginlega allt verið á verri leið en áður var ef eitthvað er. Nú er það ekki ætlan mín eða annarra Miðflokksmanna að fara að handstýra fjölmiðlum en það vill verða þannig með þau ohf. og hf. sem ríkið á að það virðist vera býsna langur vegur frá eigandanum til starfseminnar og þeirra sem stjórna starfseminni. Ég held að ég sé búinn að spyrja tvo menntamálaráðherra hver sé staða starfsmanna Ríkisútvarpsins ohf., hvort þeir hafi réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna eða starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Síðast þegar ég spurði hæstv. menntamálaráðherra að þessu vissi hún ekki svarið. Ég veit ekki hvort þetta er eitt af því sem hefur lent á milli hluta þegar rekstrinum var breytt.

Ég vek athygli á því að á meðan við engu er hróflað í rekstri þessa fyrirtækis — sem nota bene fékk nú um daginn nokkur hundruð milljónir í viðbót úr ríkissjóði vegna slæms rekstrarástands. Það eru ekki allir fjölmiðlar svo heppnir að geta skrúfað frá slíkum krana þegar illa árar. Í breytilegum heimi og breyttum heimi þykir okkur tími til kominn að neytendur á fjölmiðlasviðinu fái að hafa eitthvað um það að segja í hvað afnotagjaldspeningarnir fara, þ.e. hvort menn vilji styðja og styrkja Ríkisútvarpið áfram um þessa upphæð eða hvort menn vilji ávísa upphæðinni í einhvern annan farveg. Það er tekið alveg öndvegisdæmi sem ég veit að forseti kannast vel við, þ.e. að þau gjöld sem menn kæra sig ekki um að þjóðkirkjan fái, þeim er hægt að ávísa annað að vild. Ég hef sagt það hér áður, herra forseti, að þjóðin fæðist inn í tvær stofnanir. Við fæðumst inn í þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en það er bara ein leið út úr RÚV og hún er niður á sex fet. Það er bara þar til dauðinn aðskilur. Það eru ekki öðruvísi slit á því viðskiptasambandi.

Það er því fullkomlega eðlilegt og löngu tímabært að taka umræðu akkúrat um þetta án þess að vera neitt að fáta í erindi Ríkisútvarpsins við nútímann og án þess að verið sé að fara eitthvað sérstaklega yfir þá starfsemi sem þar er rekin. Þar eru viss gildi sem ber að hafa í huga, samanber hlutlægni, óhlutdrægni, að varðveita íslenskt mál og sinna öryggishlutverki. Ef vel er að gáð má finna gloppur í öllu þessu, herra forseti. Öryggishlutverkið er svo fínt að ég man eftir því, — og ég hef sagt þessa sögu hér áður — verandi á Fjallabaki syðra að sumarlagi og hefði átt að finna mig öruggan þar ef t.d. hefði flætt eða eitthvað slíkt, að þegar ég kveikti á útvarpinu þá var Lindin, kristileg útvarpsstöð, sú fyrsta sem mætti í útvarpið í bílnum. Ég hafði svo sem ekkert á móti því, alls ekki. Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð. En RÚV var ekki að finna á þessum bletti á landinu, alls ekki. Öryggishlutverkið á þessu landsvæði var því ekki til. Við gætum endalaust rökrætt hvort hlutlægnishlutverkið fellur að því sem það ætti að gera. Eitt getum við þó fullyrt, herra forseti, og það er að varðveisla íslensks máls er ekki til fyrirmyndar hjá þessu fyrirtæki svo að það sé bara sagt. Það verðum við vör við á hverjum einasta degi þegar við hlustum á rásir þessa fyrirtækis. Það má því greinilega taka til hendinni þarna og það má greinilega gera þarna eitthvað til að spara.

Ég skil ekkert í því að þessar tíu mínútur sem mér eru ætlaðar hér séu búnar. Ég verð að meta hvort ég þurfi að koma hingað upp aftur til að klára mál mitt. Ég læt þá forseta vita.