151. löggjafarþing — 38. fundur,  15. des. 2020.

kosningalög.

339. mál
[21:41]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til kosningalaga. Frumvarpið flyt ég sjálfur að höfðu samráði við formenn stjórnmálaflokkanna en einnig að undangenginni kynningu og umfjöllun bæði í forsætisnefnd Alþingis og umfjöllun á vettvangi funda minna með formönnum þingflokka. Það er svo að Alþingi hefur haldið utan um þetta mál á undirbúningsstigi alllangt aftur á bak í tímann eða allt frá árunum 2013 og 2014 þegar Alþingi tók í raun og veru forystu í þessu verkefni og tók það að sér og hefur séð um það síðan.

Frumvarpið byggir á tillögum starfshóps um endurskoðun kosningalaga sem ég skipaði 24. október 2018 og lauk hann störfum 10. september í ár. Frumvarpið er lagt fram eins og frá því var gengið af hálfu starfshópsins. Vinna hans styðst að þó nokkru leyti við vinnu annarrar nefndar sem þáverandi forseti Alþingis, Einar K. Guðfinnsson, skipaði árið 2014 en vegna þingrofs eða snemmbærra kosninga árið 2016 lauk þeirri vinnu fyrr en ætlað var, reyndar með framlagningu frumvarps til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, án þess að það næði umfjöllun hér á þingi. Það frumvarp var þó að sjálfsögðu ekki jafn gagnger heildarendurskoðun á öllum kosningaákvæðum og hér er á ferðinni og sneri eingöngu að lögum um kosningar til Alþingis.

Þau ákvæði kosningalaga sem lúta að undirbúningi og framkvæmd kosninga hér á landi hafa í raun lítið breyst um áratugaskeið. Vegna tíðra kosninga á undanförnum árum og ýmissa breytinga annarra sem orðið hafa hefur þeim sem að framkvæmd kosninga hafa komið orðið æ ljósari þörfin á breytingum. Þannig hefur kjörbréfanefnd Alþingis sjálfs bent á í álitum sínum í kjölfar alþingiskosninga 2013, 2016 og 2017 að brýnt sé að ljúka almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis. Landskjörstjórn hefur að afloknum alþingiskosningum allt frá kosningunum 2009 vakið athygli forseta Alþingis, ráðherra og formanna þingflokka á þörf almennrar endurskoðunar laga um kosningar til Alþingis og telur að stefna beri að setningu nýrrar heildarlöggjafar um kosningar. Loks hafa borist athugasemdir og ábendingar frá lýðræðis- og mannréttindastofnun Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE, við kosningalöggjöfina hér á landi og framkvæmd við alþingiskosningar árið 2009, 2013 og 2017. Allir þessir aðilar hafa komið ábendingum á framfæri og gert athugasemdir og lagt til úrbætur, ýmist allt frá árinu 2009 eða frá árinu 2013. Athugasemdir lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE lúta í meginatriðum að stofnun sjálfstæðs kosningayfirvalds sem hefði yfirumsjón með framkvæmd kosninga, að samræma þurfi verklag kjörstjórna, að veita þurfi kjósendum meiri fræðslu og leiðbeiningar og að utankjörfundaratkvæðagreiðsla ætti ekki að hefjast fyrr en framboðsfrestur er liðinn.

Til að víkja fyrst að forminu, herra forseti, vil ég byrja á að taka fram að frumvarp þetta til kosningalaga stefnir að mun einfaldari, heildstæðari eða nútímalegri löggjöf um framkvæmd kosninga. Lög um kosningar til Alþingis, lög um kosningar til sveitarstjórna, lög um framboð og kjör forseta Íslands og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna falla brott, verði frumvarpið samþykkt, og einn lagabálkur mun gilda um almennar kosningar í stað fjögurra áður. Felur þetta í sér umtalsverða fækkun lagagreina og reyndar myndu nokkur ákvæði kosningalaga færast í aðra lagabálka.

Uppbyggingin á þessu er þannig að lög um kosningar til sveitarstjórna, lög um framboð og kjör forseta Íslands og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna vísa til laga um kosningar til Alþingis um margt. Á það til að mynda við um atkvæðagreiðsluna sjálfa, undirbúning hennar og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og á kjörfundi. Er þá yfirleitt tekið fram að um slík atriði fari að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis og eftir því sem við á. Þar eru á ferðinni sem sagt tiltölulega gamalkunnugar vísanir milli laga og þær eru margar í þessu tilviki. Með einni kosningalöggjöf eru allar slíkar tilvísanir aflagðar og komið í veg fyrir möguleg mistök við rangar eða villandi tilvísanir milli laga. Ekki er nú minnst um vert hversu mikið það einfaldar þeim sem eru að setja sig inn í og kynna sér löggjöf um kosningar að þurfa ekki að hafa fyrir því að hlaupa á milli lagabálkanna á víxl.

Frumvarp til kosningalaga sem hér er mælt fyrir byggir á tveimur meginþáttum að segja má: Annars vegar nýju skipulagi stjórnsýslu kosningamála og hins vegar breytingum sem hafa það að markmiði að einfalda regluverk um framkvæmd kosninga og tryggja réttindi kjósenda. Eins og lesa má um í almennum athugasemdum frumvarpsins er yfirstjórn málaflokks kosninga að mörgu leyti óskýr og brotakennd, þar með talið heimildir til að gefa einstökum aðilum sem að framkvæmdinni koma almenn fyrirmæli og leiðbeiningar. Að auki takmarkast núverandi skipulag kosninga við undirbúning og framkvæmd kosninga sem tímabundins verkefnis í aðdraganda hverra kosninga um sig. Öðrum verkefnum eins og fræðslu, gerð leiðbeininga og handbóka, þjálfun, þróun verkferla, rannsóknum og stefnumótun hefur á hinn bóginn verið takmarkað sinnt enda enginn sem heldur utan um málaflokkinn að staðaldri.

Lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE hefur nú í þrígang í skýrslum sínum um alþingiskosningar 2009, 2013 og 2017 vikið að skorti á samhæfingu við framkvæmd kosninga og að tryggja þurfi samræmi á öllum stigum kjörstjórna. Hefur stofnunin lagt til sem forgangstilmæli sín að skoðuð verði stofnun sjálfstæðs kosningayfirvalds sem færi með vald yfir öllu kosningaferlinu. Í frumvarpinu er því lagt til að stjórnsýsla kosningamála verði einfölduð og samræmd og einum aðila, landskjörstjórn, falið skýrt yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk. Yfirstjórn kosningamála verði færð frá dómsmálaráðuneytinu til sjálfstæðrar stjórnsýslunefndar sem auk þess að bera ábyrgð á framkvæmd kosninga sinni viðvarandi verkefnum milli kosninga. Þannig er stefnt að því að sameina verkefni sem nú eru unnin af mörgum aðilum og samræma með því verklag, auka skilvirkni og efla fagmennsku um kosningaframkvæmd.

Gert er ráð fyrir því að landskjörstjórn taki við verkefnum dómsmálaráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, Hæstaréttar, yfirstjórnar kjördæma og að hluta til yfirstjórnar sveitarfélaga á sviði kosninga, en þó ekki öllum. Þessum verkefnum má skipta í fyrsta lagi í lögbundin verkefni sem falla til í aðdraganda kosninga eins og að auglýsa kjördag, útbúa kjörgögn, senda út leiðbeiningar o.s.frv. Í öðru lagi viðverandi verkefni eins og leiðtogahlutverk við þróun kosningaframkvæmdar og verkferla. Stjórnsýsluverkefni kosninga yrðu á einni hendi, til að mynda innleiðing nýrrar löggjafar sem taka verður tillit til við framkvæmd kosninga — þar er nærtækast að nefna persónuverndarlöggjöfina því að það er að sjálfsögðu svo að framkvæmd kosninga þarf að taka mið af lagaumhverfi af því tagi — og aukin fræðsla og leiðbeiningar um kosningar samkvæmt tilmælum ÖSE. Þá gefst tækifæri á að sinna kosningarannsóknum væntanlega með ötulli hætti en nú er gert.

Lögð er áhersla á sjálfstæði landskjörstjórnar sem fimm manna stjórnar með því að hún ræður framkvæmdastjóra og ákveður sjálf aðsetur skrifstofu sinnar. Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu, þótt að sjálfsögðu megi ræða um útfærslur þar, að landskjörstjórn verði skipuð þremur fulltrúum kosnum af Alþingi, einum fulltrúa tilnefndum af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einum fulltrúa tilnefndum af samstarfsnefnd háskólastigsins. Samsetning landskjörstjórnar endurspeglar þannig hlutverk hennar í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakjöri og við framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Við smíði tillagna um aukið og viðvarandi hlutverk landskjörstjórnar var m.a. litið til fyrirmynda í Noregi, Svíþjóð og Bretlandi þar sem starfa sjálfstæðar kosningastofnanir, eins og rakið er í greinargerð frumvarpsins.

Samhliða þessum breytingum er lagt til að yfirkjörstjórnir sveitarfélaga verði þær kjörstjórnir sem annist framkvæmd kosninga og að þær njóti leiðsagnar og aðstoðar landskjörstjórnar. Lagt er til að landskjörstjórn taki á móti framboðslistum fyrir alþingiskosningar og að talning atkvæða verði á ábyrgð yfirkjörstjórna sveitarfélaga. Landskjörstjórn tekur einnig saman fjölda atkvæða framboða í hverju kjördæmi og reiknar atkvæðatölur lista og frambjóðenda. Landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir sveitarfélaga taka þannig við verkefnum yfirkjörstjórna kjördæmanna og því er lagt til að þær verði felldar brott. Rétt er að undirstrika að kjördæmin verða áfram grunneiningar í alþingiskosningum og með þessum breytingum er að sjálfsögðu ekki hróflað við því á nokkurn hátt enda stendur stjórnarskráin sjálf vörð um það fyrirkomulag að verulegu leyti.

Loks er lagt til að komið verði á fót sjálfstæðri og óháðri úrskurðarnefnd um kosningamál og með því komið til móts við m.a. ábendingar ÖSE í skýrslu stofnunarinnar um alþingiskosningarnar 2009. Samkvæmt frumvarpinu verður unnt að skjóta til nefndarinnar tilgreindum ákvörðunum landskjörstjórnar, yfirkjörstjórna sveitarfélaga og Þjóðskrár Íslands um undirbúning og framkvæmd kosninga. Nefndin skal einnig úrskurða um gildi framboðslista við alþingiskosningar og sveitarstjórnarkosningar og kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum. Loks og ekki síst skal úrskurðarnefnd kosningamála taka við kærum um ólögmæti forsetakjörs, sveitarstjórnarkosninga, þjóðaratkvæðagreiðslna og íbúakosninga sem haldnar eru á grundvelli sveitarstjórnarlaga. Kærur út af gildi alþingiskosninga, þar á meðal um kjörgengi alþingismanna, koma til úrlausnar Alþingis sjálfs í samræmi við fyrirmæli 46. gr. stjórnarskrárinnar.

Rétt er að geta þess að með því að setja á fót sérstaka úrskurðarnefnd er ekki verið að taka úrskurðarvald frá kjörstjórnum eða landskjörstjórn. Stofnun sérstakrar úrskurðarnefndar felur því í sér viðbótar og umtalsverðar réttarbætur.

Hinn meginþáttur frumvarpsins má kalla einföldun regluverks, að einfalda regluverkið og gera það skilvirkara. Vil ég fara yfir sex sérstakar tillögur frumvarpsins sem stefna að þessu markmiði. Þar nefni ég fyrst nýtt fyrirkomulag fyrir þá sem þurfa aðstoð við að kjósa.

Ein allra mikilvægasta tillaga frumvarpsins er sú að öllum sem þess þurfa verður heimilað að fá aðstoð við kosningar, hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum. Samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis getur kjósandi nú eingöngu fengið aðstoð kjörstjóra eða eigin aðstoðarmanns við að greiða atkvæði vegna sjónleysis eða ef honum er höndin ónothæf. Komi kjósandi með eigin aðstoðarmann á kjörstað fylgir því talsvert umstang. Þetta fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt af hagsmunaaðilum þar sem fólki er mismunað eftir því hvers konar fötlun það býr við. Eins og þingheimi er kunnugt var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fullgiltur hér á landi 2016 og í samræmi við þá alþjóðlegu skuldbindingu er lagt til að allir kjósendur eigi rétt á aðstoð við að greiða atkvæði og þannig tryggt að allir geti notið þeirra grundvallarmannréttinda að taka þátt í kosningum. Meginregla kosningalaga verður því sú að einstaklingur með kosningarrétt, sem getur mætt á kjörstað, eigi rétt á aðstoð í samræmi við þarfir sínar. Kjósandi getur valið á milli þess að njóta aðstoðar kjörstjórnar eða koma með sinn eigin aðstoðarmann á kjörstað. Skilyrði er að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir frá því hvernig hann vill greiða atkvæði og aðstoðarmanni er óheimilt að aðstoða fleiri en þrjá kjósendur. Refsivert verður að neyða fólk til að greiða atkvæði. Þessi tillaga starfshópsins var unnin í samstarfi við Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands.

Ég legg áherslu á að hér er lögð á vogarskálarnar meginreglan um leynilegar kosningar annars vegar og hins vegar hinn lýðræðislegi réttur til að greiða atkvæði. Það er ljóst mál og er í mínum huga þannig að það síðarnefnda vegur þyngra í þessu tilliti og þörfin fyrir aðstoð metin brýnni heldur en almenna reglan um ýtrustu kosningaleynd. Þess má geta að stjórnskipunarréttarfræðingur sem hefur kynnt sér tillögur frumvarpsins um málið telur hana ekki stofna kosningaleynd í hættu.

Þá eru það atkvæði utan kjörfundar en þar er m.a. enn verið að koma til móts við ábendingar ÖSE allt aftur til ársins 2009 um jafnræði stjórnmálasamtaka. Lagt er til að framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hefjist ekki, þ.e. utankjörfundaratkvæðagreiðslan, fyrr en öll framboð hafa verið komin fram eftir að framboðsfrestur er runninn út. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar færist því nær kjördegi og hefst 29 dögum fyrir kjördag í stað mögulega 56 daga nú, enda sýnir reynslan að meginþungi atkvæðagreiðslunnar er tveimur, þremur vikum fyrir kjördag. Í ljósi þess að kjósendur vita hverjir verða í framboði þegar atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst, verði þetta niðurstaðan, er lagt til að kjósendur geti eingöngu greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum, annaðhvort utan kjörfundar eða á kjörfundi.

Einnig er lagt til að tekin verði upp póstkosning til að auðvelda aðgengi að atkvæðagreiðslu utan kjörfundar fyrir Íslendinga sem búa erlendis. Póstkosning er þröng heimild fyrir kjósendur sem eru erlendis og hafa hvorki tök á að greiða atkvæði utan kjörfundar né á kjördag. Tillagan er að norrænni fyrirmynd og felur í sér leið fyrir kjósendur sem ekki geta mætt í sendiráð eða til ræðismanns að kjósa og myndu eflaust ekki greiða atkvæði í miklum mæli annars. Póstkosning er einnig lögð til svo að komið sé til móts við gagnrýni sem komið hefur fram vegna galla á utankjörfundaratkvæðum sem koma erlendis frá þar sem kjörstjórar hafa ekki haft næga þekkingu til að leiðbeina um hvernig greiða á atkvæði. Rýmri frestur er veittur til að kjósa með pósti því að gera þarf ráð fyrir rúmum tíma fyrir kjósandann að skila atkvæði af sér þar sem póstsamgöngur geta verið stopular.

Samhliða þessum breytingum er með frumvarpinu leitast við að gera ákvæði gildandi laga um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar skýrari og formfastari, til að mynda um það hvenær atkvæðagreiðslunni skuli lokið. Jafnframt er það nýmæli að sýslumaður skuli að ósk sveitarstjórnar skipa kjörstjóra til þess að annast atkvæðagreiðslu utan kjörfundar en gildandi lög kveða eingöngu á um heimild í þessu skyni. Sýslumannsembættum hefur fækkað mjög hin síðustu ár og því er í einhverjum tilvikum hagfelldara að utankjörfundaratkvæðagreiðsla fari fram á vegum sveitarfélaga. Loks er gert ráð fyrir að atkvæðagreiðsla utan kjörfundar geti farið fram á hreyfanlegum kjörstað, t.d. í rútu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar svo að kosningaathöfnin verði einfaldari og öruggari með því að kjörstjórn stimplar kjörseðil áður en kjósandinn leggur hann í atkvæðakassa. Er þetta að finnskri og norskri fyrirmynd. Með hliðsjón af þeirri tækni sem almenningi stendur til boða, til að mynda með því að taka myndir af kjörseðli í kjörklefa og láta síðan prenta og dreifa eða til að upplýsa hvernig kjósandi hefur greitt atkvæði, má segja að tiltölulega auðvelt geti verið að hafa áhrif á framkvæmd kosninga eða spilla þeim. Í ljósi þessa vaknar eðlilega sú spurning hvort einfalda megi framkvæmdina og þar með auka öryggi og auðvelda jafnframt störf kjörstjórna með því að gera ráð fyrir að kjörstjórn staðfesti með stimpli sínum á kjörseðilinn að kjósandi hafi greitt atkvæði áður en hann leggur hann í atkvæðakassa. Með þessu fyrirkomulagi er ekki þörf á sérstöku bókhaldi eða uppgjöri um fjölda notaðra og ónotaðra kjörseðla og engin þörf á reglum um sérstaka varðveislu og dreifingu kjörseðla. Samhliða þessu er lagt til að atkvæði verði metin ógild ef kjörseðill er ekki sá sem landskjörstjórn eða yfirkjörstjórn hefur látið gera og ef kjörseðill hefur ekki verið stimplaður af kjörstjórn eða kjörstjóra.

Í frumvarpinu er lagt til að miðlæg vinnsla kjörskrár verði hjá Þjóðskrá Íslands í stað sveitarfélaga eins og nú er. Gert er ráð fyrir að kjörskrá miðist við íbúaskrá þjóðskrár 33 dögum fyrir kjördag og að gera megi leiðréttingar á kjörskránni fram á kjördag. Þjóðskrá Íslands auglýsir að gerð hafi verið kjörskrá og sendir sveitarfélögum kjörskrána með rafrænum hætti. Þá er gert ráð fyrir að fest verði í lög sú framkvæmd að stjórnmálasamtök sem bjóða fram við kosningar og frambjóðendur í forsetakjöri eigi rétt á að fá afhenta kjörskrá.

Lagt er til að tekin verði upp rafræn kjörskrá sem verði meginregla við kosningar. Þó verði sveitarstjórn heimilt að óska eftir því við landskjörstjórn að notast við prentaða kjörskrá, t.d. ef ekki er unnt að tryggja rafræna tengingu við hinn miðlæga gagnagrunn á kjörstað.

Í frumvarpinu er að finna tillögu þess efnis að útgáfa kjörbréfa til alþingismanna, forseta Íslands og sveitarstjórnarfulltrúa verði lögð af. Í stað þess fái þeir tilkynningu um niðurstöðu kosninga og að þeir hafi hlotið kosningu. Talsvert umstang fylgir útgáfu kjörbréfa og þá sérstaklega útgáfu kjörbréfa til varaþingmanna sem ekki hafa slíkt, sem ekki verður séð að hafi annan tilgang en að lýsa kosningaúrslitum. Mikilvægt er að lýsa réttum úrslitum kosninga opinberlega eftir hverjar kosningar — og við vorum nýlega minnt á mikilvægi þessa — og er á því byggt í frumvarpinu. Að mati starfshópsins er þar með ekki nauðsynlegt að gera það með útgáfu kjörbréfs.

Samkvæmt 33. gr. stjórnarskrárinnar er kosningarréttur í alþingiskosningum og þar með forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslu bundinn við lögheimili á Íslandi nema undantekningar frá þeirri reglu séu ákveðnar í lögum, samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þá gildir kosningarrétturinn nú í átta ár frá flutningum frá Íslandi en hægt er að viðhalda kosningarréttinum í fjögur ár til viðbótar í senn með umsókn til Þjóðskrár Íslands. Kosningarréttur í sveitarstjórnarkosningum er á hinn bóginn bundinn við lögheimili með mjög þröngum undantekningum. Starfshópurinn sem undirbjó frumvarpið ræddi hversu lengi mætti ætla að Íslendingar búsettir erlendis haldi þannig tengslum við landið að réttlæti áhrif á íslenskt samfélag og/eða áhuga á því, þ.e. með kosningarréttinum. Í ljósi þess að kosningarréttur þeirra er undantekning frá lögheimilisskilyrði stjórnarskrárinnar er á því byggt í frumvarpinu að Íslendingar búsettir erlendis haldi kosningarrétti sínum við alþingiskosningar, forsetakjör og í þjóðaratkvæðagreiðslum í 16 ár frá flutningi lögheimilis. Þannig er hinn sjálfgefna heimild verulega lengd eða um átta ár og mælt fyrir um skýra og fyrirsjáanlega reglu. Slíkt felur í sér einföldun stjórnsýslu þar sem umsýsla við umsóknir til Þjóðskrár Íslands, samanber 2. gr. laga um kosningar til Alþingis, leggst af.

Í ákvæði til bráðabirgða er lagt til að þeir Íslendingar sem búsettir eru erlendis og hafa nú kosningarrétt haldi honum í 16 ár frá gildistöku nýrra laga þannig að Íslendingar sem hafa verið á bilinu 0–8 ár með lögheimili erlendis eða hafa nýlega endurnýjað kosningarrétt sinn um fjögur ár þar í viðbót, myndu allir saman fá viðbótar 16 ára rétt.

Gert er ráð fyrir því, og það gerist í raun sjálfkrafa, að kjósandi öðlist aftur kosningarrétt við flutning lögheimilis til landsins. Benda má á skýringar við 3. gr. frumvarpsins fyrir nánari upplýsingar um þetta sem og fyrirkomulag að þessu leyti í nágrannaríkjum okkar. Þar er einnig að finna upplýsingar um fjölda þeirra sem nýtt hafa sér þennan rétt sinn.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti langar mig til að nefna lauslega nokkur önnur mikilvæg atriði frumvarpsins. Það er gert ráð fyrir því að talning atkvæða fari fram í sveitarfélögum en þar sem færri en 100 kjósendur eru á kjörskrá skal landskjörstjórn sameina talninguna við talningu í öðru sveitarfélagi. Vegna athugasemda sem komu fram í samráðsferli frumvarpsins var horfið frá því að leggja til að talning færi fram á kjörstöðum. Nú er sem sagt lagt til að talning atkvæða fari fram á ábyrgð yfirkjörstjórnar sveitarfélags og hún mun því ákveða hvar hentugast er að telja atkvæðin. Það er alveg ljóst að mikilvægi kjörstjórna sveitarfélaganna vex við þessar breytingar en þær hafa nú þegar mikilvæg hlutverk. Í þessu sambandi má auðvitað nefna að sveitarfélögunum er að fækka og þau eru að stækka og þau ættu þar af leiðandi verða almennt séð betur í stakk búin til að styðja myndarlega við bak sinna kjörstjórna og tryggja þeim góðar starfsaðstæður.

Lagt er til að kjördögum verði flýtt til að auðvelda framkvæmd kosninga þannig að sveitarstjórnarkosningar fari framvegis fram annan laugardag í maí í stað síðasta laugardags í maí og að forsetakjör verið haldið fyrsta laugardag í júní í stað síðasta laugardags í júní. Almennt verði tímafrestir reiknaðir í heilum sólarhringum til að gæta samræmis.

Hvað viðvíkur framboðum til alþingiskosninga er gerð nokkur rýmkun eða breyting á fjölda frambjóðenda á lista. Er við það miðað að á framboðslista skuli vera a.m.k. jafn mörg nöfn og kjósa á í hvert skipti en aldrei fleiri en tvöföld sú tala, í stað núgildandi reglu, sem er í raun mjög ströng, þar sem segir að á framboðslista skuli vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu og hvorki fleiri né færri. Þetta er stíf regla, t.d. í tilvikum eins og þeim að frambjóðandi látist rétt fyrir kosningar. Reyndar er séð fyrir því með því að í lögunum verði ákvæði um að þá færist frambjóðendur aftar á listanum sjálfkrafa upp.

Ákvæði um umboðsmenn stjórnmálasamtaka eru gerð skýrari í sérstökum kafla frumvarpsins þannig að auðvelda megi yfirsýn yfir störf þeirra. Það er gengið út frá því með skýrum hætti að kjósendur skuli merkja X í ferning á kjörseðli og ákvæði um mat á gildi atkvæða hefur verið uppfært í samræmi við úrskurði kjörbréfanefndar síðustu árin. Lagt er til að tekið verði upp í kosningalög að norskri fyrirmynd og samkvæmt tilmælum ÖSE sérstök heimild fyrir innlenda og erlenda kosningaeftirlitsmenn til að fylgjast með framkvæmd kosninga.

Loks er lagt til að fella kosningaframkvæmd opinberra aðila undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993, og upplýsingalög, nr. 114/2012, auk þess sem umboðsmaður Alþingis fari með eftirlit með stjórnsýslu þeirra.

Við vinnslu frumvarpsins, virðulegur forseti, var lögð mikil áhersla á góða upplýsingagjöf og að vinna allt ferlið opið. Boðið var upp á samráðsgátt strax í upphafi og aftur í lok vinnu starfshópsins, auk samráðs við hagsmunaaðila og fulltrúa þingflokka. Sérstakur ráðgefandi hópur fulltrúa þingflokkanna starfaði samhliða nefndinni. Auk þess var tekið á móti fjölda gesta og ýmislegt rætt. Síðan var opnað sérstakt vefsvæði á vef Alþingis fyrir endurskoðun kosningalaga þar sem miðlað var upplýsingum um vinnu starfshópsins og er einnig að finna gögn um vinnu fyrri starfshópa. Þetta var gert til að tryggja breiða aðkomu að þessu stóra máli og að athugasemdir gætu komið fram strax í upphafi vinnunnar en ekki þegar hún væri langt komin.

Í byrjun þessa árs voru helstu atriði tillagna starfshópsins kynnt forsætisnefnd Alþingis og öllum þingflokkum og þingmanni utan flokka. Seinna samráðsferli fór fram í mars 2020 og voru þá drög að frumvarpi til heildarlaga um kosningar ásamt greinargerð send hagsmunaaðilum og lögð í samráðsgátt stjórnvalda og á vef Alþingis til kynningar.

Helst gerðu umsagnaraðilar athugasemdir við talningu atkvæða á kjörstað, að hver kjósandi gæti aðeins kosið einu sinni og við stimplun kjörseðla sem hluta kosningarathafnarinnar. Starfshópurinn reyndi síðan af fremsta megni að taka athugasemdir umsagnaraðila til greina og skýra þá eftir atvikum betur út tillögur sínar þar sem við átti. Eins og áður sagði var ákveðið að falla frá því að framkvæma talningu á kjörstöðum og er nú mælt fyrir um að talning atkvæða verði á ábyrgð yfirkjörstjórna sveitarfélaga. Í skýringum í frumvarpinu, sem er allmikið að vöxtum með mjög ítarlegri greinargerð, er rækilega farið yfir þessi atriði.

Starfshópurinn brást ekki við athugasemdum er lutu að breytingum á stjórnarskrá eða athugasemdum um fjármál og starfsemi stjórnmálaflokka, athugasemdum um breytt kosningakerfi, kjördæmaskipan eða úthlutun þingsæta enda er það sjálfstætt mál og í sjálfu sér ekki hluti af bráðnauðsynlegri heildarendurskoðun kosningalaganna og kosningafyrirkomulagsins sjálfs. Með þessu má kannski segja á penan hátt að starfshópurinn hafi reynt að halda flokkspólitík utan við þetta mál og líta á það sem faglegt úrlausnarefni að gera tillögur að faglegri og vandaðri heildarendurskoðun kosningalöggjafarinnar í einu frumvarpi.

Herra forseti. Þetta verk er metnaðarfullt og eðlilega eru ýmis sjónarmið uppi um einstök atriði þessa máls, útfærslur og tæknileg atriði og ég hef drepið á nokkur þeirra og gæti bætt fleirum við. Ég veit að meðal þingflokkanna, meðal formanna flokkanna og hjá einstökum þingmönnum, er að sjálfsögðu að finna eðli málsins samkvæmt athugasemdir við ýmislegt og varla við öðru að búast. En ég vil bara að lokum leggja mikla áherslu á það og biðja hv. þingmenn að hafa í huga að það er varla vansalaust lengur að Alþingi, úr því að það hefur tekið þetta verkefni dálítið upp á sínar herðar, komist ekki að lokum í mark með það löngu brýna verkefni að mæta athugasemdum, sumum býsna alvarlegum, sem við höfum fengið núna ítrekað eftir þrennar og fernar síðustu almennar kosningar í landinu. Af ýmsum ástæðum hefur ekki unnist úr því eins og skyldi og við engan að sakast í þeim efnum nema þá óstöðugleika í stjórnmálum sem hefur leitt til snemmbærra nýrra kosninga aftur og aftur. Nú held ég að við séum komin nær þessu marki en nokkru sinni fyrr. Ég bind því miklar vonir við að frumvarpið fái góða og rækilega skoðun í nefnd en legg að sjálfsögðu áherslu á að það ber að leita sem víðtækastrar samstöðu um þetta mál. Það er ákaflega mikilvægt fyrir okkur sem þroskað lýðræðisríki að góður friður sé um grundvallarlöggjöf af þessu tagi.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég til að málið gangi til 2. umr. og til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.