151. löggjafarþing — 39. fundur,  16. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er skrifað inn í samninginn að við getum nýtt okkur þennan öryggisventil í 112. gr. þegar á þarf að halda, við aðstæður eins og eru núna uppi, og það eigum við að sjálfsögðu að gera. Í því er ekkert kapphlaup. Þetta snýst ekki um neitt slíkt. Þetta snýst bara um það að nýta þann samning sem við höfum vegna þess að aðstæðurnar sem uppi eru núna eru með þeim hætti.

En að breytingartillögu þingmanns. Þar er lagt til að setja peninga beint til bænda. Fínt. Ég get alveg verið sammála því að við eigum að auka greiðslur til bænda. En það eru engar upphæðir í þessari tillögu hv. þingmanns eða flokks hennar.

Síðan langar mig að spyrja, af því að hún er svo upptekin af milliliðunum sem ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um, þetta snýst ekki um milliliði: Hvernig hjálpar það bændum að greiða þeim peninga þegar vandinn er að þeir eiga of mörg dýr og koma þeim ekki í slátrun? Hvað gera peningar til að hjálpa í því? Hvað gera peninga til bænda í því að minnka umframmagnið og birgðirnar í landinu? Hvernig leysir það vandamálið? Auknar birgðir, há birgðastaða mun á endanum leiða til lægra verðs til bænda. Þess vegna þarf að vinna á birgðunum, (Forseti hringir.) hvort sem það er í verslunum eða vörugeymslum eða einfaldlega þau dýr sem bíða, dýr á fóðrum, hjá bændum eftir því að komast í sláturhús.