151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

breyting á lögreglulögum.

[10:42]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið dreift nýju frumvarpi um breytingu á lögreglulögum sem ég hef ekki náð að mæla fyrir. Ég tel vera ýmsar mikilvægar breytingar í því, eins og hv. þingmaður kemur inn á, m.a. með eftirlitið þar sem við erum að reyna að styrkja stoðir nefndarinnar og eftirlit með lögreglu, gera mögulegt að komast að sjálfstæðri niðurstöðu, hraða málsmeðferðartíma nefndarinnar o.s.frv.

Síðan er spurt um vald erlendrar lögreglu. Um er að ræða alþjóðlegt samstarf og atriði sem við þurftum að skýra gagnvart löndum í kringum okkur þegar hafa verið skipti milli landa, milli lögregluyfirvalda, og þegar við höfum komið að alþjóðlegri aðstoð. Þetta snýst um alþjóðlegt samstarf fyrst og fremst.

Varðandi þriðja atriðið þá beinir hv. þingmaður sjónum sínum að einhverjum breytingum er varða vopnaburð lögreglumanna sem ég tel mig ekki vera að fara í með frumvarpinu að miklu leyti. Það hefur ekki verið á áætlun að breyta því með einhverjum hætti. Þarna er verið að styrkja stoðir ýmissa ákvæða sem hefur þurft að skýra. Um einhverjar hafa komið athugasemdir og annað er það sem ég hef boðað um lögfestingu lögregluráðs sem er aukið samstarf lögreglumanna um eftirlit með lögreglumönnum, um aldursskilyrði o.fl. Önnur atriði eru kannski smávægilegri og hafa komið upp í athugasemdum, m.a. í skýrslum, og hefur verið beint að dómsmálaráðuneytinu að bæta úr.