151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

búvörulög.

376. mál
[11:36]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér finnst þreytandi og mér finnst það satt best að segja ekki alveg heiðarlegt að ef einhverjir vilja fara aðra leið þá sýni þeir ekki skilning eða stuðning við þann sem um er rætt. Eins og kom fram ágætlega hjá hv. þm. Haraldi Benediktssyni þá er óumdeilt meðal umsagnaraðila og þingmanna að vandinn er risavaxinn og að bregðast þurfi við með miklum aðgerðum. Það er enginn ágreiningur um það. Ég vil biðja hv. þingmenn um að hætta að láta eins og það sé ágreiningur um það því að svo er ekki.

Fyrir liggur breytingartillaga frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem við munum styðja. Við erum á móti málinu, ekki vegna þess að við erum á einhvern hátt á móti bændum, sem er barnaleg túlkun á þeirri afstöðu, heldur vegna þess að viljum fara aðra leið. Þessi leið er vond og hefur neikvæðar hliðarverkanir sem við erum á móti. Við greiðum því atkvæði gegn málinu og breytingartillögum Miðflokksins, sem eru enn þá verri, en með breytingartillögum sem ég nefndi áðan.