151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

staðan í sóttvarnaaðgerðum.

[13:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég held að full ástæða sé til að fara að ráðum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og fá upplýsingar, fá skýrslugjöf, frá heilbrigðisráðherra og jafnvel öðrum ráðherrum sem hér hafa verið nefndir, um stöðu mála. Hvað ef eitthvað hefur klikkað í samningagerðinni? Þá þurfum að vita hvað það er. Mér sýnist að eitthvað hafi klikkað þegar fólk var að gera þessa samninga. Í það minnsta er ljóst að byrjað er að bólusetja í Bretlandi og Bandaríkjunum og í fleiri löndum. Það á að byrja 27. desember í öllu Evrópusambandinu miðað við það sem maður les í fjölmiðlum. Hvers vegna er ekki hægt að gera þetta á Íslandi? Og hér hefur líka komið fram, sem er hárrétt, að ef verstu spár rætast, ef spá smitsjúkdómalæknis rætist, ef við náum ekki fullu hjarðónæmi hér fyrr en seint á síðari hluta næsta árs, þá mun það þýða miklu dýpri efnahagsleg áhrif en við erum að horfa fram á í dag. Grunnurinn að fjárlögum og fjármálaáætlun er brostinn gangi þetta eftir. Við hljótum að þurfa að taka mark á þessu, hæstv. forseti.