151. löggjafarþing — 40. fundur,  17. des. 2020.

staðan í sóttvarnaaðgerðum.

[13:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er alltaf hætta á því þegar stjórnarandstöðuþingmenn koma hér upp og biðja um eitthvað að því sé tekið eins og einhverju kvabbi eða einhverjum ómálefnalegheitum. Ég hef enga ástæðu til að telja svo vera úr röðum Miðflokksins og það er ekki tilfellið hjá þeim sem hér stendur. Ég vil hins vegar líka nefna sérstaklega að mér finnst ekki duga að við fáum upplýsingavef einhvers staðar eða yfirlit yfir samningagerð eða eitthvað því um líkt. Við þurfum að geta spurt spurninga og fengið svör við þeim. Það er jú hluti af starfi okkar. Ástæðan fyrir því er sú að jafnvel þó að við fáum yfirlit og upplýsingar í hvaða formi sem er þá er skilningur fólks á eðli faraldursins og vísindunum á bak við hann mjög ólíkur og misjafnlega mikill og það er eðlilegt í mannlegu samfélagi. En við erum hér sem fulltrúar þessa tiltekna mannlega samfélags, lýðveldisins Íslands, til að spyrja yfirvöld fyrir hönd almennings til að geta komist til botns í hlutunum umfram það að fá einfaldlega upplýsingar í hendur. (Forseti hringir.) Ég kalla sérstaklega eftir því að við fáum tækifæri til að spyrja ráðherra og/eða sóttvarnayfirvöld og fá svör við spurningum okkar.