151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[10:49]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég get eiginlega ekki þakkað hv. þingmanni meira fyrir þetta andsvar en ég ætla að gera núna. Ég veit að í brjósti hv. þingmanns berst heitt og stórt hjarta. Í andsvarinu var hv. þingmaður í sjálfu sér einmitt að lýsa ástæðu þess að sumu leyti að við Miðflokksfólk tökum þetta mál svo alvarlega sem raun ber vitni og leggjum á það áherslu að börn fái bót sinna ágalla eða meina sem allra fyrst. Jú, það er einmitt þess vegna, herra forseti, að við segjum: Þetta eru tvenns konar vandamál sem tekið er á í þessu frumvarpi. Eins og hv. þingmaður sagði svo dæmalaust vel og vitnaði í frumvarpið, þá er leyfilegt að gera aðgerðir sem varða sköpulag svo fljótt sem verða má. Það er einmitt það sem við höfum verið að leggja áherslu á, að barn, drengur í þessu tilfelli, sem er með t.d. klofið typpi — ef ekki er lagfært það ástand og hann þarf að bera það með sér fram eftir árum, fyrir utan það að það er mjög erfitt að laga slíkt síðar — það er einmitt til þess að koma í veg fyrir stríðni, einelti, koma í veg fyrir vanlíðan, koma í veg fyrir það að menn treysti sér ekki til að sækja sundkennslu eða annað slíkt, að líða ekki vel innan um fólk. Það er akkúrat það sem við erum að tala um. Þess vegna segi ég: Þetta frumvarp hér er reist á félagslegum forsendum. Þess vegna ætti að skipta því upp þannig að læknisfræðilegi hlutinn væri alveg ótvíræður.