151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[10:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Enn þakka ég hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og fyrir að gefa okkur innsýn í þetta ástand af eigin reynslu og reynslan er ólygnust. Ég skynja eiginlega að undir niðri séum við sammála, ég og hv. þingmaður, þ.e. í því að vilja báðir koma í veg fyrir að börn verði fyrir stríðni sem eru með líkamlegra ágalla af hvaða toga sem er, með klofinn góm, klofið typpi, eistu sem fara ekki niður. Við viljum að þessir ágallar séu lagaðir sem fyrst til að reyna að koma í veg fyrir einelti, til að koma í veg fyrir vanlíðan, til að koma í veg fyrir að með börnum hlaðist upp baggi sem þau bera með sér inn í lífið. Það er það sem við viljum forðast og þess vegna viljum við breyta þessu máli.

Þess vegna finnst mér að við séum í raun og veru sammála eftir það sem hv. þingmaður var að tala um áðan. Ég verð eiginlega hissa ef hv. þingmaður greiðir ekki atkvæði með okkur Miðflokksmönnum í þessu máli og tekur ekki undir með okkur Miðflokksmönnum um að draga málið til baka, að laga það þannig að það nái einmitt þessum markmiðum sem við, ég og hv. þingmaður, erum svo innilega sammála um. Ég segi aftur: Ég þakka hv. þingmanni innilega fyrir að gefa okkur þessa innsýn inn í reynslu hans, því að hún er dýrmæt. Hún herðir mig t.d. og okkur félagana í Miðflokknum alveg örugglega enn í því að reyna að fá þessu máli breytt, börnum þessa lands til heilla.