151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa ræðu. Hún var mjög góð og ég þakka honum aftur fyrir það að gefa okkur innsýn í það sem hann hefur upplifað sjálfur. Það þarf hugrekki til. Það var aðallega eitt sem ég hnaut um í ræðu hv. þingmanns. Nú ætla ég ekki að halda því fram að ég sé betur læs en hann, alls ekki, en hv. þingmaður spurði á einum stað í ræðu sinni hvort það væri trú manna að sérfræðingar sem hefðu menntað sig til og helgað líf sitt börnum, vandamálum þeirra og leiðréttingum á þeim vandamálum og hjálp í þeim vandamálum, hvort við héldum að þeir sérfræðingar myndu vilja leggja stein í götu barna, eða eitthvað í þá áttina.

Það er einmitt þess vegna sem ég spyr hv. þingmann. Ég er sammála honum að þessu leyti, ég trúi því ekki að að vel meinandi fólk sem er vel menntað og hefur helgað líf sitt velferð barna með námi og starfi, leggi með ásetningi stein í götu þeirra. Þess vegna langar mig til að spyrja hv. þingmann hverja hann telur ástæðu þess að þessi sami sérfræðingahópur sem þarna kom að verki finnur sig í því að flækja mál annarra, samanber þeirra sem eiga við sköpulagsgalla að stríða. Hvað veldur því að þessi sérfræðingahópur, sem hefur helgað líf sitt börnum og þeirra málum, flækir málið með þessum hætti?