151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:57]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef velt því fyrir mér meðan á þessari umræðu um kynrænt sjálfræði hefur staðið, til hvaða hóps Miðflokkurinn er að reyna að höfða. Ég átta mig alls ekki á því. Það var mjög merkilegt að sitja hér í þingsal fyrir fáum dögum síðan og sjá að Miðflokkurinn einn greiddi atkvæði gegn þessum mannréttindamálum sem aðrir hér í þingsal eru sammála um að séu mikilvæg skref fram á við. Ég held að Miðflokkurinn hafi misreiknað sig í baráttu sinni, ég veit ekki einu sinni hvað hann er að reyna að gera. Ég segi bara: Hvað á þetta að þýða? Þetta er ekki barátta fyrir mannréttindum eða barnavernd hjá Miðflokknum. Hvað er þetta eiginlega? Þetta eru púðurskot hjá Miðflokknum. Formanni flokksins hefur verið tíðrætt um merkimiðastjórnmál, öfgar, tækifærismennsku, og verið með alls konar upphrópanir og orð sem hann reynir að merkja sér með einhverjum hætti. Ef þetta er ekki misheppnuð tækifærismennska hjá Miðflokknum þá veit ég ekki hvað. Þau rök sem þeir hafa reynt að halda á lofti hér hafa verið hrakin, (Gripið fram í.) þ.e. að börn fái ekki nauðsynlega læknisþjónustu. Það hefur verið marghrakið í þingsal og í þeim gögnum sem málinu fylgja.

Ég spyr því hv. þm. Bergþór Ólason: Að þessu frumvarpi standa mannréttindasérfræðingar, landlæknir, Læknafélag Íslands, Intersex Ísland, Samtökin '78 og fleiri. Hvað hefur hann fyrir sér í því að þessir aðilar séu ekki hér með gott mál sem lent er í þingsalnum sem hægt er að treysta á og fylgja eftir? Hvað hefur þingmaðurinn fyrir sér þar?