151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:05]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir upplýsingarnar frá hæstv. heilbrigðisráðherra og umræðuna í dag. Hún er mikilvæg vegna þess að þjóðin öll bíður eftir þessum upplýsingum. Undanfarnir mánuðir hafa verið erfiðir og við hlökkum öll til að halda inn í nýja árið vitandi það að bólusetning sé á leiðinni. Ég hrósa ríkisstjórninni og heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir að hafa haldið vel á málum. Það var gott að heyra ráðherra nefna það áðan að búið væri að gera áætlun sem tekur yfir dreifingu og samræmingu og verið væri að þjálfa starfsfólkið. Þetta var mjög sannfærandi og gott að heyra. Einnig það sem fleiri hafa nefnt, að við séum í samningaviðræðum við fleiri en eitt og fleiri en tvö fyrirtæki. Það er mikilvægt. Síðast en ekki síst það lykilatriði að búið sé að tryggja nægilegt magn bóluefnis fyrir Ísland.

Mig langar til að spyrja ráðherra nokkurra spurninga sem ég held að marga, sér í lagi núna í skammdeginu, langi til að fá svar við, þ.e. hvort fólk fái bólusetningarskírteini þegar það hefur fengið bólusetninguna og eigi þá auðveldara með að ferðast til og frá öðrum ríkjum. Einnig vil ég spyrja sérstaklega um Norðurlöndin — vegna þess að þau hafa verið í mjög þéttu samstarfi, t.d. með kaup á bóluefni og ýmsu öðru, og ég veit að heilbrigðisráðherrar og ríkisstjórnirnar hafa verið í miklu samtali — hvort slíkt bólusetningarskírteini kæmi til greina a.m.k. fyrir Norðurlöndin til að tryggja frjálst flæði fólks þar á milli.