151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:41]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér erum við með, eins og einhver sagði, gullfallegt mál í höndunum. Við erum að lengja fæðingarorlofið í 12 mánuði og við erum að auka jafnrétti á vinnumarkaði. Framsóknarflokkurinn telur að meira þurfi að gera og við erum tilbúin til þess að halda áfram á þeirri vegferð. Því verð ég að nota hér tækifærið og segja að mér finnst sorglegt að sjá tillögu frá Miðflokknum um að hafa skiptinguna tólf, núll, (GBS: Viltu ekki frelsi?)og sér í lagi að fulltrúi Miðflokksins sem leggur tillöguna fram sé fyrrverandi formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna, sat þar frá 2013–2016, formaður Jafnréttissjóðs Íslands frá 2016 og fyrrverandi formaður Landssambands Framsóknarkvenna. Telur Miðflokkurinn að fullu jafnrétti sé náð á vinnumarkaði? Tillaga flokksins felur það í sér. Mér finnst þetta sorglegt. En ég styð að sjálfsögðu málið því að það er mjög gott.