151. löggjafarþing — 43. fundur,  18. des. 2020.

jólakveðjur.

[22:32]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Háttvirtir alþingismenn. Þá er komið að lokum síðasta fundar á Alþingi fyrir jólahlé, síðasta þingfundar á árinu 2020.

Árið 2020 hefur verið landsmönnum erfitt á ýmsan hátt. Reyndar eigum við Íslendingar senn að baki eitt af þessum ótrúlegu árum í sögu okkar þar sem stórviðburðir raðast saman. Ef við lítum rétt rúmt ár aftur í tímann þá geisaði hörkustórhríð, ég leyfi mér að segja grenjandi stórhríð, á landinu sem olli stórtjóni á dreifikerfi raforku, truflaði fjarskipti, felldi búfénað og olli margs konar erfiðleikum. Árið heilsaði svo sjálft með náttúruhamförum fyrir vestan, snjóflóðum sem rifjuðu upp sárar minningar og ollu tjóni en kostuðu sem betur fer ekki mannslíf í þetta sinn.

Svo kom kórónuveirufaraldurinn sem við stöndum enn í. En árið var ekki búið, eins og mig grunaði. Ég hélt kannski að Katla myndi gjósa en það voru náttúruöflin fyrir austan sem minntu á sig í gær og í dag með geigvænlegum fréttum frá Seyðisfirði. Hugur okkar allra er nú hjá Seyðfirðingum, Eskfirðingum og öðrum íbúum Austurlands. Þeim eru sendar baráttu- og samstöðukveðjur héðan frá Alþingi Íslendinga.

Rétt er að hafa í huga þegar við skoðum störf á 151. löggjafarþingi að á þessu hausti kom það saman þremur vikum síðar en venja er. Ég held því að við getum verið ánægð með afköstin þótt tíminn hafi verið skemmri til starfa en oft áður. Framlögð stjórnarfrumvörp á þessum fyrsta hluta 151. þings eru 89 og stjórnartillögur 13. Þá hefur fjöldi þingmála verið lagður fram, bæði frumvörp og þingsályktunartillögur. Frumvörpin eru 76 og tillögurnar 95. Til viðbótar hafa nefndir lagt fram sex mál, fjögur frumvörp og tvær þingsályktunartillögur. Af þessum fjölda hafa 39 stjórnarfrumvörp orðið að lögum og 11 stjórnartillögur verið samþykktar. Þrjú nefndarfrumvörp urðu að lögum og ein þingmannatillaga var samþykkt. Öll mikilvægustu þingmál sem bundin voru gildistöku um áramót hafa hlotið afgreiðslu og sama gildir um mál sem tengjast heimsfaraldri kórónuveiru. Þann árangur má ekki síst þakka því samkomulagi sem tókst milli þingflokka tímanlega fyrir jólahlé.

Ég vil nota tækifærið og þakka formönnum þingflokkanna alveg sérstaklega fyrir þeirra góða hlut við lokaafgreiðslu mála sem gerði það að verkum hve skilvirk og árangursrík þessi lokatörn hefur verið. Lagafrumvörp sem tengjast kórónuveirufaraldrinum, og hafa verið samþykkt sem lög frá Alþingi á 151. þingi, eru nú þegar komin vel á þriðja tug og þrjár ályktanir tengdar heimsfaraldrinum hafa verið samþykktar. Það er auðvitað alveg einstakt, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi hér áðan, að fimm fjáraukalög hafa verið samþykkt í ár og þau eru ekki svo lítil að vöxtum. Ef við lítum á árið 2020 í heild, þ.e. þann hluta 150. löggjafarþings sem féll innan þess og núna 151. þing, þá eru frumvörp sem tengjast áhrifum faraldursins og orðið hafa að lögum frá Alþingi vel á sjötta tug og um tugur ályktana Alþingis hefur verið samþykktur. Frá upphafi hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar níu sinnum flutt Alþingi munnlegar skýrslur um faraldurinn. Þær tölur sýna allar hversu mikilvægt það hefur reynst að Alþingi hefur haldist starfhæft og verið til staðar til að sinna hlutverki sínu allt í gegnum faraldurinn og til þessa dags. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur þurft að fella niður margvíslega viðburði á vegum Alþingis og ber þar auðvitað hæst að fella þurfti niður hefðbundið Norðurlandaráðsþing í fyrsta skipti í sögu norræns samstarfs. Annað alþjóðastarf Alþingis hefur einnig takmarkast við fjarfundi og fundir fastanefnda hafa sömuleiðis að langmestu leyti verið haldnir með fjarfundasniði. Góð samstaða var um að breyta þingsköpum þannig að nefndir gætu nýtt sér alfarið að vinna á fjarfundum og án þess að til þess þyrfti lengur sérstök afbrigði. Nefnd um viðameiri breytingar á þingsköpum, skipuð fulltrúum allra flokka, er að störfum og má vænta frumvarps um breytingar á lögum þingskapa á nýju ári.

Þá má einnig nefna að frumvarp til nýrra kosningalaga er komið til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar er á ferðinni metnaðarfull heildarendurskoðun allra lagaákvæða um almennar kosningar í landinu og ákvæðin sameinuð í einu frumvarpi en Alþingi hefur sjálft haft forystu um verkefnið allt frá árinu 2014. Fleiri framfaraskref eru tekin og fyrir mánuði var undirritaður samningur Alþingis og verktaka um þriðja áfanga nýbyggingar skrifstofuhúss á Alþingisreit. Fyrir viku rann fyrsta steypan í mót og eru það vissulega gleðileg tímamót.

Í lok þessa síðasta þingfundar ársins 2020 ítreka ég þakkir mínar til þingmanna, þingflokksformanna og ráðherra og síðast en ekki síst til starfsfólks Alþingis fyrir þess góðu störf. Starfsfólk Alþingis hefur unnið ótrúlegt starf, minnst af hverju sýnilegt, á þessu dæmalausa ári, og vegna aðstæðna hér, og við stöndum í mikilli þakkarskuld við það. Ég óska öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs. Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári. Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.