151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[15:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Þetta mál er kemur hér fram í annað sinn og virðist vera í svipuðum búningi og síðast nema mér sýnist að nú muni menntamálaráðherra ekki sjálfur úthluta þeim styrkjum sem nefndir eru heldur sérstök úthlutunarnefnd. Ég ætla að fara lauslega yfir frumvarpið sem slíkt en fara að öðru leyti yfir stöðuna á fjölmiðlamarkaði og áhrif fjölmiðla, sem eru ærin. Eins og ég hef örugglega sagt áður hygg ég að í engu hafi orðið jafnmikil þróun undanfarandi ár. Við gætum tekið hvaða árabil sem er, herra forseti. Við gætum tekið síðustu 100 ár, síðustu tíu ár, fimm ár, 50 ár, og það er hvergi jafn mikil þróun og í fjölmiðlun eða margmiðlun og nú er. Segja má að einn einstaklingur sem hefur aðgang að neti eða getur tengt sig að öðru leyti, gefið út snöpp, tíst o.s.frv., sé orðinn fjölmiðill og áhrifavaldur. Þannig að staðan er gerbreytt frá því sem áður var.

Það virðist vera siður hjá þessari ríkisstjórn að þegar einfaldir kostir bjóðast velja menn alltaf þyngri og flóknari kostinn. Þetta á t.d. við um það að mikill áhugi er hjá ríkisstjórninni á að gera hálendi Íslands að ríkisstofnun, sem verður væntanlega ein stærsta ríkisstofnun á Íslandi. Menn hafa gefið út einhvern lista um hvaða stofnanir þeir vilja leggja af, þar á meðal Nýsköpunarmiðstöð af öllum. Í stað hennar á að koma upp einkahlutafélagi í eigu ríkisins, af því að við höfum svo góða reynslu af slíkum rekstrareiningum í eigu ríkisins eða hitt þó heldur.

Hér erum við að ræða mál um styrki til frjálsra fjölmiðla. Það á að styrkja fjölmiðla um 400 milljónir á ári. Það er út af fyrir sig kunnugleg tala. Við getum borið þá tölu saman við fjárheimildir og tekjur stærsta keppinautarins, stærsta leikarans á sviðinu, RÚV ohf., sem er með um 5 milljarða á fjárlögum plús 2 milljarða í auglýsingatekjur. Það dugði ekki í þetta sinn, frú forseti. Það kom kvein úr Efstaleiti og því var svarað úr þessu húsi með u.þ.b. 400 milljónum meðan á afgreiðslu fjárlaga stóð, ofan á 5 milljarðana, ofan á 2 milljarðana í auglýsingatekjur.

Það er líka athugunarefni að með frumvarpinu er verið að ríkisvæða alla fjölmiðla á Íslandi. Það er verið að gera alla fjölmiðla, þ.e. þá sem njóta styrkja samkvæmt frumvarpinu, háða ríkinu og stjórnvöldum hverju sinni. Mér hefur þótt það verulega alvarleg þróun og ég hef verið áhyggjufullur yfir henni. Það virðist vera að svo sé um fleiri. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa hér lungann úr baksíðugrein Fréttablaðsins í dag eftir Hauk Örn Birgisson. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á dögunum sagði Blaðamannafélag Íslands að lægsta punkti í samtímasögu íslenskrar fjölmiðlunar hefði verið náð. Tilefnið var ákvörðun Stöðvar 2 um að hætta fréttaútsendingum í opinni dagskrá.

Alvarlegur rekstrarvandi einkarekinna fjölmiðla hér á landi hefur blasað við um áraraðir enda er samkeppnisstaða þessara fjölmiðla vonlaus gagnvart hinu ríkisrekna fjölmiðlafyrirtæki RÚV. Meinið er þekkt og lækningin ætti að vera augljós. En í stað þess að ráðast að orsök meinsins ætla stjórnvöld að leggja plástra yfir sárin. Það mun ekki stöðva blæðinguna.

Vandamál fjölmiðla verður ekki leyst með því að veita þeim styrki úr ríkissjóði og gera þá þannig háða opinberu fé. Að láta þá árlega senda inn umsókn til sérstakrar úthlutunarnefndar á vegum ríkisins. Þetta mun ekki efla frjálsa og sjálfstæða fjölmiðlaumfjöllun. Þvert á móti.

Það er hreinn leikaraskapur að halda því fram að ríkisstyrkir muni ekki hafa áhrif á ritstjórnir fjölmiðla, afstöðu þeirra til málefna og umfjöllunar um þau. Allir sem háðir eru tekjum frá ríkisvaldinu munu haga sér öðruvísi gagnvart valdinu — það eru engin vísindi. Þú bítur ekki höndina sem fæðir þig.

Með fullri virðingu fyrir fréttastofu Stöðvar 2 þá felst lágpunktur íslenskrar fjölmiðlunar ekki í því að fréttir stöðvarinnar verði framvegis í læstri dagskrá, heldur í því að til standi að gera íslenska fjölmiðla að bótaþegum. Eflaust er þetta vel meint — en það mun koma þveröfugt út.“

Og lýkur þá lestrinum. Ég hefði nánast getað skrifað þennan pistil sjálfur, frú forseti, vegna þess að hann bergmálar algerlega þær skoðanir sem ég hef haft uppi og hef gagnvart þessu frumvarpi.

Ég verð að segja eitt í viðbót áður en ég fer að tala almennt um fjölmiðlamarkaðinn. Það kemur mér mjög á óvart að í skilyrðum fyrir rekstrarstuðningi sem eru talin upp í g-lið 2. gr., þ.e. það sem áður var 62. gr., er í engu gerð krafa um að fjölmiðlar sem njóta ríkisstuðnings hafi gott málfar. Engin krafa er gerð um að móðurmálinu sé gert hátt undir höfði heldur eru þessi skilyrði einungis almenn skattalaga- og skattaatriði. Tek ég þar með undir það sem hv. þm. Bergþór Ólason sagði áðan, að þessi úthlutunarnefnd gæti í sjálfu sér átt heima hjá skattinum.

Auðvitað er fær auðveldari leið til að jafna þann mun sem er á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Við Miðflokksmenn höfum talað fyrir henni mjög oft. Það er sú leið, eins og segir í tillögu okkar, að hver og einn Íslendingur sem borgar útvarpsgjald geti ánafnað þeim fjölmiðli sem hann kærir sig um einum þriðja af því gjaldi. Þetta er þekkt á öðrum vígstöðvum, frú forseti. Þeir sem ekki vilja greiða sóknargjald til þjóðkirkjunnar geta ánafnað sóknargjaldi sínu annað. Ég ætla að segja enn einu sinni það sem ég hef sagt nokkrum sinnum í þessum ræðustól, frú forseti, það má segja að við Íslendingar fæðumst inn í tvær stofnanir. Við fæðumst inn í þjóðkirkjuna og við fæðumst inn í RÚV. Munurinn á þessu tvennu er sá að við getum sagt okkur úr þjóðkirkjunni en við getum ekki sagt okkur undan RÚV. Við skulum með góðu eða illu greiða nauðungaráskriftina alla okkar ævi, þennan nefskatt, alveg burt séð frá því hvort við nýtum þjónustuna eður ei, alveg burt séð frá því hvort við erum ánægð með efnistök eður ei.

Nú ætla ég að segja aftur, af því að ég nefndi hér skilyrði um móðurmál, að það eru mjög mikil vonbrigði hvernig Ríkisútvarpið og starfsfólk þess fer með móðurmálið. Ég verð að nefna það, frú forseti, að í starfsliði Ríkisútvarpsins, RÚV ohf., er sérstakur málfarsráðunautur. Sá aðili kemur mér helst í hug vegna þess að sá, eða sú, fann upp nýyrði um föstudag sem ég hef ekki eftir. Ég hlýt að hafa misskilið gjörsamlega, frú forseti, tilganginn með starfi málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins. Það kann vel að vera að menn telji að það sem ég segi nú sé talað aftan úr grárri forneskju og það verður bara að hafa það vegna þess að ég tel að móðurmálið íslenska geri okkur að þjóð umfram allt annað. Þess vegna skýtur skökku við að sú menningarstofnun, sem ætti kannski hvað helst að vera brjóstvörn íslenskunnar, bregðist.

Ég ætla að segja það sem prívatskoðun hér, frú forseti, og þess vegna vík ég enn að því sem ég sagði áðan, að engin skilyrði eru sett um móðurmál fyrir stuðningi við frjálsa fjölmiðla, að fólkið sem skrifar á vefinn, skrifar í blöðin, talar í útvarpið, kennir okkur íslensku alla daga. Ef það fólk er ekki vel skrifandi og talandi á íslensku, eins og mér finnst oft raunin — ég verð bara að viðurkenna að mér finnst það oft raunin. Það er raun að lesa t.d. vefmiðlana, sem eru reyndar uppfærðir í fljótræði á hverjum degi og virðast ekki vera rýndir að nokkru einasta leyti, en þeir virðast því miður ekki vera yfirlesnir af nokkrum aðila með góðan málskilning. Þarna er eitt veigamikið atriði sem vantar inn í skilyrði fyrir því að styðja frjálsa fjölmiðla.

Mestu vonbrigðin eru náttúrlega þau að menn skuli ekki fara þá leið sem væri affarasælust og áhrifaríkust og sem var tekið undir í þessu tilvitnaða tilskrifi sem ég las hér áðan, þ.e. að hagræðingu verði beitt í rekstri Ríkisútvarpsins, RÚV ohf. Það vill þannig til, og ég færði rök fyrir því áðan, að í fjárlagaumræðunni voru enn hækkuð framlög til þess hlutafélags. Ég man ekki eftir því að aðrir fjárlagaliðir hafi fengið jafn vænar trakteringar í fjárlagaumræðunni.

Það vill svo illa til, frú forseti, að ég er að verða búinn með þann tíma sem mér er afmarkaður í þessari umræðu að sinni. Ég verð því að hugleiða hvort ég fari aftur í ræðu og geri það á eftir. Það er margt ósagt af minni hálfu um þetta mál. Ég segi enn að ég held að einfalda leið okkar Miðflokksmanna hefði verið affarasælust til að veita einkareknum fjölmiðlum eða frjálsum fjölmiðlum vörn.