151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

fjölmiðlar.

367. mál
[16:19]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið þegar hann sagði að við yrðum ekki sammála um alla hluti. En það var eitt sem ég hjó eftir í málflutningi hv. þingmanns í báðum andsvörum, að það væri eins konar lögmál að ríkið ræki útvarp. Það er ekki lögmál. (Gripið fram í.)Það er ekki lögmál. Einu sinni rak ríkið líka Viðtækjaverslun ríkisins vegna þess að þá fannst mönnum að það væri ekki nóg að reka útvarp heldur þyrfti að reka líka verslun fyrir tækin til að njóta útvarpsins. En það er mjög gott að hv. þingmaður skuli taka þann pól í hæðina að við eigum að ræða aðkomu ríkisins að menningu yfir höfuð, ég er algerlega til í það, mjög til, og þar á meðal þetta. En eins og ég segi, það er ekki lögmál að það sé rekið útvarp á vegum ríkisins. Þetta fyrirtæki, sem er ekki hægt að kalla stofnun lengur vegna þess að það er hlutafélag, hefur í grunninn ekkert breyst síðan 1930 nema hvað varðar tækni. Það er komið sjónvarp og síðan litasjónvarp, það er komin steríóútsending og eitthvað slíkt, en grunnurinn á rekstri þessa félags hefur ekki breyst að marki síðan 1930. Þess vegna er það kannski sem þetta fyrirtæki sogar til sín ógrynni fjár úr ríkissjóði á hverju ári frá hverjum landsmanni, hvort sem hann nýtur þjónustunnar eða ekki, hvort sem hann kærir sig um þjónustuna eða ekki. Það er kannski lykillinn. Þessa umræðu þurfum við að taka miklu lengra.