151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:19]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Íslendingar hafa tækifæri til að byggja upp grænan iðnað á sviði þörungavinnslu. Hér á landi eru kjöraðstæður á heimsvísu, hreinn sjór og víðfeðm hafsvæði. Frumkvöðlar og fjárfestar eru áhugasamir en lagaumgjörðin og regluverkið er enn ekki nógu gott. Alþingi þarf að skapa trausta umgjörð um þennan iðnað og skapa skýra stefnu. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis sem sú sem hér stendur lagði fram á haustþingi ásamt þingflokki Framsóknarflokksins.

Þörungar eru ekki bara næringarrík fæða fyrir skepnur og mannfólk heldur framleiða þeir líka stóran hluta súrefnis jarðarinnar. Þörungar hreinsa sjóinn og þá má einnig nýta sem áburð. Sumar smáþörungategundir eru olíuríkar og úr þeim er hægt að framleiða lífeldsneyti. Því er ljóst að sjálfbær öflun þörunga og aukin nýting þeirra getur hjálpað til við að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og haft jákvæð áhrif á vistkerfi jarðar. Heimsmarkaður fyrir þörunga er stór og fer vaxandi. Samkvæmt skýrslu The Insight Partners (ReportLinker) um heimsmarkað fyrir þörunga frá júní 2020 er því spáð að markaðurinn vaxi í 1,3 milljarða dala árið 2027. Þá kemur einnig fram í skýrslunni að vaxandi eftirspurn sé eftir matvæla- og drykkjarafurðum sem unnar eru úr þörungum en efni úr þörungum má finna í fjölmörgum matvælategundum, snyrtivörum og iðnaðarvörum eins og málningu, dekkjum, tómatsósu, tannkremi og svo má lengi telja.

Samkvæmt greiningu Sjávarklasans frá nóvember 2019 er vöxtur í þörungaframleiðslu í heiminum áætlaður um 7,4% á ári til ársins 2024 og því spáð að veltan verði um 1,1 milljarður bandaríkjadala árið 2024. Í þessari grein liggja mýmörg áhugaverð tækifæri fyrir íslenskt athafnalíf. Með því að fjárfesta í menntun, rannsóknum og frumkvöðlafyrirtækjum á þessu sviði getur Ísland skapað sér sess meðal forystuþjóða í fullnýtingu þangs og þara og ræktun smáþörunga.