151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[18:16]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er ekki sami asi á mér í dag, þegar ég kom hér fyrr, einmitt til að ræða mál sem varðar heill kvenna. En áður en ég held lengra ætla ég að gera þá játningu að ég stóð að flutningi þessa frumvarps í fyrra. Þegar til stóð jafnvel að ég gerði það öðru sinni, þá fór ég að hugsa mitt mál, líka með jafningjafræðslu. Ég komst að því að við nánari skoðun er margt í þessu frumvarpi sem er beinlínis skaðlegt, jafnvel eitthvað sem fer í bága við stjórnarskrá o.s.frv. Ég og allt Miðflokksfólk, við erum á móti merkimiðapólitík, svona límmiðapólitík. Það er svo merkilegt að núna undanfarandi er einn merkimiðinn afglæpavæðing, það á að afglæpavæða allt, eitt og annað. En á sama tíma með þessu frumvarpi á að glæpavæða jafnréttisbaráttuna. Það á að gera refsivert með fésektum ef ákveðnum skilyrðum er ekki náð, skilyrðum sem voru lögfest fyrir nokkrum árum síðan. Það hefur gengið bærilega að uppfylla þau. En nú vilja sumir hotta á þessa þróun með því að beita fyrirtæki fésektum og það ekkert smotterí, það eru dagsektir frá 10.000 kalli upp í 100.000 kr. á dag. Það er ekkert smotterí.

Það varð mér nokkur uppljómun í morgun þegar ég hnaut um það að með Fréttablaði dagsins í dag fylgir kynningarblað, mikið að vöxtum, sem heitir Konur í atvinnulífinu. Í þessu blaði er rætt við konur sem eru að störfum í ýmsum fyrirtækjum og við ýmis störf. Þær eru frumkvöðlar, þær eru yfirbakarar, fjármálastjórar, mannauðsstjórar, bankastjórar. Ég gæti haldið lengi áfram. Þó að ég hafi haldið því fram að ég sé alveg þokkalega upplýstur um atvinnustarfsemi í landinu þá viðurkenni ég það, herra forseti, að sá árangur sem þessar konur hafa náð og eru að ná í stofnun fyrirtækja, í rekstri fyrirtækja, á öllum sviðum, fór eiginlega fram úr vonum mínum. Ég fór að hugsa þegar ég fletti blaðinu: Skyldu allar þessar konur hafa verið ráðnar undir hótunum? Þeir sem réðu þær konur, sem eru í þessu blaði og eru ekki sjálfstæðir atvinnurekendur, þær eru mjög margar líka, skyldu þeir sem réðu konur sem mannauðsstjóra, fjármálastjóra, framkvæmdastjóra, bankastjóra hafa setið undir hótunum um fésektir ef þær yrðu ekki ráðnar? Að sjálfsögðu komst ég að þeirri niðurstöðu að þær konur sem getið er um í þessu blaði — þetta er mjög gagnmerkt blað, hvet alla til að lesa það og ég mun lesa það mun betur í kvöld þegar ég kem heim. Ég get ekki annað en fyllst aðdáun þegar ég les þetta blað því þótt ég hafi gert mér nokkuð glögga grein, að ég taldi, fyrir atvinnulífinu, þá fór það eiginlega fram úr mínum björtustu vonum hvað konur hafa gert sig gildandi í atvinnurekstri. Þetta blað er einmitt gefið út af Félagi kvenna í atvinnurekstri sem er félagsskapur sem var stofnaður fyrir nokkrum árum síðan. Þeim árangri sem þessar konur hafa náð hafa þær að sjálfsögðu náð fyrir eigin atbeina, eigin hæfileika, eigin getu, þekkingu og reynslu. Það hefur engum verið hótað til að þær fengju þann framgang eða nytu þeirrar athygli og velgengni eins og raun ber vitni.

Þetta fannst mér mjög áhugavert, herra forseti, vegna þess að síðan það var lögfest að það skyldi vera jöfn skipting kynja í fyrirtækjum yfir ákveðin stærðarmörk, þ.e. að annað kynið sé ekki fámennara en 40% í stjórnum fyrirtækja yfir ákveðnum stærðarmörkum, hefur okkur þokað nokkuð á leið. Lesandi þetta blað í dag get ég eiginlega ekki ímyndað mér, herra forseti, að það líði mjög langur tími þar til að þessi kvóti sem lögfestur var fyrir nokkrum árum verði að fullu uppfylltur án þess að til þurfi að koma fésektir, án þess að til þurfi að koma hótanir, bara vegna þess að konur hafa fengið þann framgang sem hér er lýst í þessu blaði fyrir eigin atbeina, hæfileika og þekkingu.

Herra forseti. Ég veit ekki til þess að nokkur maður, nokkrir aðilar eða hópur eða félagsskapur, hafi hótað háskólayfirvöldum á Íslandi þar sem nú eru 70% nemenda konur. Ég veit ekki til þess að háskólafólkið eða stjórnendur háskóla hafi setið undir hótunum til þess að skrá inn allan þennan hóp glæsilegra kvenna sem er við nám og störf í háskólum landsins. Það er síðan önnur umræða hvort að með þessu hlutfalli felist öðruvísi jafnréttisbarátta sem verður háð eftir 15–20 ár, þá verði háð jafnréttisbarátta með öfugum formerkjum. Þá kemur kannski fram á Alþingi frumvarp sem beinir því til þeirra sem reka fyrirtæki í landinu að örfáir karlar fái að vera í stjórnum fyrirtækja að viðlögðum dagsektum. Þetta segi ég bara til að leggja áherslu á að þróun í samfélögum verður kannski hvað fegurst og hvað árangursríkust ef hún er óþvinguð og sjálfsprottin og fer fram á velli þar sem allir eru jafnir þátttakendur án tillits til trúarbragða, kyns, kynhneigðar eða hvað við viljum draga fram.

Af því að ég er á þessum góða aldri þá hef ég séð þessa þróun frá því að konur voru heimavinnandi eins og móðir mín heitin sem átti níu börn á lífi á 21 ári. Það segir sig sjálft að hún hafði ekki sömu möguleika til að sækja sér menntun eða störf vegna þess að hún var jú upptekin við að reka heimili. En að vísu tókst henni, af því að hún var eljusöm, að nýta hvert tækifæri sem hún gat til þess bæði að vinna utan heimilis og afla sér aukinnar menntunar, ég tala nú ekki um þegar ungarnir voru að fljúga úr hreiðrinu. En það er ekki nema þetta langt síðan, herra forseti, að þetta var kannski það sem við ólumst upp við sem eins konar staðalmynd, því að við notum ekki orðið norm, herra forseti. Sú staðalmynd breytist síðan í tímans rás að sjálfsögðu og með aukinni þátttöku kvenna og menntun, og ekki bara menntun heldur fjölbreyttri menntun.

Og má ég minnast á það, herra forseti, að í blaðinu er getið um unga konu sem er orðinn formaður í sínu stéttarfélagi, stéttarfélagi rafvirkja, nota bene. Sú var tíðin að rafvirkjun var meitluð í stein sem karlastarf en nú er það sem betur fer þannig að konur streyma í iðnnám, bæði rafvirkjun og trésmíði og eitt og annað. Mér er ekki kunnugt um að það sé vegna þess að einhverjum hótunum hafi verið beitt til þess að þær kæmust að heldur hafa þær farið þar inn vegna hæfileika sinna og löngunar til að taka þátt í því sem þar um ræðir.

Það er annar þáttur sem ég hefði líka viljað koma inn á sem kristallast í nefndaráliti minni hluta um þetta ágæta mál sem lýtur að félagafrelsi og frelsi manna til að reka fyrirtæki og hasla sér völl í viðskiptum. Og þegar ég segi menn þá á ég náttúrlega við bæði menn og konur. Þau sjónarmið eru uppi í þessu máli sem við ræðum hér að það geti verið álitamál hvort það, eins og það er búið, standist félagarétt, félagafrelsi og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Nú ætla ég ekki að fara að lesa mikla lögfræði fyrir hæstv. forseta, en einn okkar mesti lögspekingur, Stefán Már Stefánsson prófessor, sérfræðingur í félagarétti, kom fyrir nefndina og hann var beðinn um að svara tveimur spurningum þar sem undir var félagafrelsi og annað til, sem ég kem að á eftir. Stefán segir m.a., með leyfi forseta:

„Hafa ber í huga að félagafrelsi og eftir atvikum eignarréttur þeirra er varinn af ákvæðum stjórnarskrárinnar gagnvart ýmsum ráðstöfunum af hálfu ríkisvaldsins, þar með talið löggjafans, sbr. einnig 11. gr. MSE.“ — Nú kann ég ekki þessa skammstöfun, en forseti veit alveg örugglega hvað þetta er. — „Af þessum sökum er meginreglan sú að félög ráða sjálf málum sínum og teljast jafnframt eigendur eigna sinna.

Þennan rétt er þó unnt að skerða ef slíkar skerðingar hafa stoð í málefnalegum sjónarmiðum, þar á meðal sjónarmiðum um meðalhóf. Það væri t.d. málefnalegt sjónarmið að leitast við með setningu laga að jafna hlutföll milli karla og kvenna í stjórnum sumra félaga. Gæta verður þó meðalhófs. Það þýðir að leita verður leiða sem skerða sem minnst rétt félaga til að ráða sjálf málum sínum og eigum en geta engu að síður verið til þess fallnar að ná þeim markmiðum sem að er stefnt.“

Þarna kemur nú kannski akkúrat það sem ég ræddi hér áðan, að sá árangur sem þegar hefur náðst að þessu leyti til hefur náðst án hótana eða févíta á þau fyrirtæki sem um ræðir.

Stefán Már heldur áfram, með leyfi forseta, og segir:

„Sé um að ræða félög sem eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga eru mun ríkari heimildir fyrir hendi til þess að setja lög af fyrrgreindu tagi. Fyrirliggjandi frumvarp gæti því samrýmst slíkum félögum.

Meiri vafi ríkir hins vegar þegar um einkafyrirtæki er að ræða. Í öllu falli þyrfti þá lagaheimild af þessum toga að vera skýr og fyrirsjáanleg. Það þýðir að þvingunarúrræðum verður vart beitt nema lagaheimild teljist nægjanlega skýr og að gættum hugsanlegum undantekningum sem þurfa sömuleiðis að vera skýrar. Eins þarf að vera leidd rök að því (t.d. í lögskýringargögnum) að vægari úrræði væru ekki tæk til að ná markmiðinu um kynjahlutföll í stjórnum.“

Í öðru lagi var spurt af hálfu minni hlutans hvaða kröfur bæri að gera um málsmeðferð á vettvangi stjórnvalds sem falið væri vald til að beita íþyngjandi aðgerðum eins og mælt er fyrir um í frumvarpinu, með tilliti til rannsóknarreglu, meðalhófs, andmælaréttar og upplýsingaskyldu stjórnvalda, og hvaða sjónarmið um sveigjanleika í ljósi ólíkra aðstæðna gætu átt við.

Í svari Stefáns kom fram að svarið færi fyrst og fremst eftir heimildarlögunum. Væri um opna heimild að ræða væri öruggara að fara varlega og beita ekki heimild nema um tiltölulega augljósa vanrækslu væri að ræða. Í hlutafélögum og einkafélögum gætu auðveldlega komið fyrir tilvik þar sem félag gæti ekki tryggt jafna stöðu kynja. Það ætti t.d. við þar sem hlutfallskosning er viðhöfð. Þetta þekkjum við mætavel á Alþingi vegna þess að ekki liggur fyrir fyrir kosningar hvert hlutfall karla og kvenna verður í þessum sal að afloknum sömu kosningum. Svo ég haldi áfram að vitna til Stefáns þá segir hann að við slíkar aðstæður væri tæpast ráðlegt að leggja á dagsektir. Einnig verði að gæta að öllum stjórnsýslureglum og í því sambandi væri rétt að skoða stöðu þess stjórnvalds sem leggur á dagsektir og möguleika á að kæra slíkar ákvarðanir til æðra stjórnsýslustigs.

Að þessu sögðu, herra forseti, þá vil ég taka fram að við Miðflokksfólk erum mjög áfram um framgang kvenna hvar sem er, hvort sem er í starfi, námi, kosningum, hvar sem er. Menn hafa nú gert góðlátlegt grín að því að hvernig þingflokkur okkar er skipaður en geta ber þess að hann var settur saman á örfáum vikum eins og flokkurinn allur og náði fordæmalausum árangri. Að sjálfsögðu, eins og blasir t.d. við þegar við horfum á sveitarstjórnarfulltrúa okkar eru þar margar glæsilegar konur og það eru mjög margar kröftugar og glæsilegar konur sem skipa trúnaðarmennsku innan Miðflokksins, bara svo þess sé getið hér í framhjáhlaupi, herra forseti, ég vil að það komi fram. Og vegna þess að við viljum að konur njóti réttinda til jafns við karla þá viljum við líka, samanber frumvarpið sem hér er til umræðu, að þær njóti krafta sinna og verðleika á nákvæmlega sama hátt og karlmenn gera. Við höfum alls ekki fundið að því með nokkrum hætti að settar séu reglur og lög sem eiga að tryggja að jafnt vægi karla og kvenna sé t.d. í stjórnum fyrirtækja. Það er hins vegar þessi þröskuldur þar sem refsingin kemur inn í, þegar við ætlum, eins og ég sagði áðan, að glæpavæða jafnréttisbaráttuna með því að gera hana að sektarlegri féþúfu fyrir ríkissjóð. Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs. Ég held að það sé ekki vænlegt til árangurs að breyta uppbyggingu undir hótunum. Við sjáum það víða að það er ekki vænlegt til árangurs.

Að sjálfsögðu treystum við því með þau 13% sem upp á vantar að jafnt vægi sé í stjórnum fyrirtækja af þeirri stærðargráðu sem þetta frumvarp tekur til, við væntum þess að þar verði bætt úr hið fyrsta en við teljum ekki nauðsynlegt að það sé gert undir svipuhöggum.

Ég er ekki í nokkrum vafa um það t.d. að umræðan sem hér hefur farið fram í dag, sem hefur verið býsna góð og get ég þá vitnað í margar ræður og ekki síst ræðu hæstv. forseta áðan, mun vekja athygli og hún verður örugglega til þess að menn hugsa sig um meira og betur. Ég er alveg sannfærður um að það styttist mjög í það að jafnrétti (Forseti hringir.) og jafnræði og jafnstaða verði með körlum og konum í stjórnum fyrirtækja sem hér eiga í hlut.