151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

um fundarstjórn.

[12:04]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef með aðstoð skrifstofunnar kannað stöðuna á þessu máli vegna umræðna sem urðu um það hér undir lok dags í gær. Stutta sagan er sú að þótt ég hafi tekið til orða með tilteknum hætti, og það hefði mátt skilja mig þannig, þegar ég talaði um að málið gengi til nefndar, þá var það ekki svo. Það sést bæði af umfjöllun nefndarinnar sjálfrar og hvernig hún skildi við málið og upplýsingum um það, þar sem rætt var í lok fundar um að málið kæmi aftur til nefndarinnar milli 2. og 3. umr. og það hefði verið undirbúið og starfsmenn nefndarinnar undirbúið skoðun á málinu milli 2. og 3. umr. En það sem mestu skiptir er að stöðu málsins var ekki breytt í skráningarkerfi Alþingis. Það er gert gangi mál aftur formlega til nefndar. Sé því vísað til nefndar, þó svo að það sé í umræðu, þá breytist staða þess í skráningarkerfi Alþingis. Undir málinu má alltaf sjá stöðu þess á hverjum tíma. Annaðhvort er það til 2. umr. og bíður þar eða það er í nefnd og það er skráningarkerfið sem ræður þar um. (Forseti hringir.) Staða þess er þessi og þar af leiðandi ekkert því að vanbúnaði að 2. umr. haldi áfram um málið.