151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður er á ágætri leið með að skýra þetta út fyrir mér. Ef hv. þingmaður hefur tíma í seinna andsvari getur hún aðeins sagt mér betur frá því hvernig það getur unnið gegn markmiðunum ef fólk er skyldað til að gera þetta. Verður til einhver óhlýðni í samfélaginu? Líta menn svo á að verið sé að troða á réttindum þeirra og kjósa þar af leiðandi að hunsa slíkt? Það er svona pælingin.

Svo var líka hitt, hvort við séum, ef við erum að skylda fólk til að fara í bólusetningar, að brjóta á rétti þess gagnvart stjórnarskrá eða hvort við séum að láta alla hina njóta vafans, hvort við getum sagt að einhvers konar meðalhóf sé í gangi, að með því að skylda alla og fylgja því fast eftir sé verið að vernda svo og svo marga sem annars myndu verða veikir og mögulega hljóta einhvern skaða af.

Og ef tími vinnst til að þá fór ég að hugsa: Ef það eru einhver sjónarmið sem takast á eru þá einhverjir hópar sem á að skylda, ég veit ekki, eftir aldri eða stöðu í samfélaginu, þ.e. mikilvægi? Ég er nú ekki að tala um stöðu heldur forgangshópa eða þá sem við getum helst ekki án verið; lækna og hjúkrunarfólk og þess háttar. Á að skylda þau í bólusetningu en leyfa t.d. þingmönnum að velja? Sjálfsagt eru fáir sem halda því fram að við séum ómissandi. Þetta er svona pælingin en vonandi gefst okkur tækifæri til að ræða þetta frekar síðar.