151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Maður var svolítið hissa þegar þetta frumvarp kom fram, hissa og ekki hissa, tónninn var svolítið afskiptasamur, ef má orða það þannig, í frumvarpinu. Mig langar aðeins að velta þessari pælingu aðeins áfram, það er kannski ekki bein spurning, en ég velti líka fyrir mér þegar ríkið eða ríkisstofnun stendur sig ekki eða tekur einhverja ákvörðun, við þekkjum gott dæmi, eftirlit eða sóttvarnir brugðust á einni af okkar helstu heilbrigðisstofnunum þannig að fjöldi smitaðist og lést. Í framhaldinu voru aðgerðir hertar. Hver á að bera tjónið af því þegar hert er á aðgerðum gagnvart veitingamönnum eða þegar landinu er lokað áfram eða eitthvað slíkt? Þetta er ákvörðun sem var tekin vegna þess að einhvers konar mistök hafa orðið eða óhapp. Til að ég reyni að einfalda þetta verðum við að skýra ábyrgð ríkisins gríðarlega vel, hvar hún liggur og þá um leið hvar bæturnar eiga að liggja vegna þess að þessar ákvarðanir sem eru teknar geta valdið töluvert miklu tjóni.