151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:07]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst rétt og skylt að bregðast aðeins við og hv. þingmaður fjallaði vissulega meira um málin hér almennt en það á vel heima í umræðum um þingsköp. Í fyrsta lagi er ég sammála því að þingsköpin eru geysilega mikilvæg grundvallarlöggjöf. Það er ekkert að því að telja þau upp svona fljótlega í framhaldi af stjórnarskránni sjálfri og við hliðina á kosningalögum og öðru slíku. Þetta er mikilvæg undirstöðulöggjöf sem setur leikreglurnar um þingræðið sjálft hér á Alþingi. Þess vegna eru þingsköp líka sett með stoð í stjórnarskránni sem mælir fyrir um að leikreglurnar á þingi skuli settar með lögum, að það skuli ganga frá fundarsköpum Alþingis með lögum.

Í öðru lagi, af því að hv. þingmaður nefnir stjórnarskrána, þá vek ég athygli á frumvarpi hæstv. forsætisráðherra sem væntanlega verður á dagskrá á morgun. Þar er geysilega áhugaverður kafli, endurskoðun á II. kafla stjórnarskrárinnar, um samskipti forseta og framkvæmdarvalds, og ég hvet þá sem áhugasamir eru um stöðu Alþingis til að lesa vel það sem að Alþingi snýr í því máli. Það er nefnilega meira en í fljótu bragði mætti ætla. Þar er sjálfræði Alþingis styrkt og fest mjög vel í sessi og ég hyggst fara yfir það í ræðu þegar kemur að umræðum um það mál.

Í þriðja lagi vil ég halda uppi nokkrum málsvörnum fyrir viðleitni okkar á þessu kjörtímabili til að reyna að auka fyrirsjáanleikann í störfum. Margvíslegar aðgerðir hafa verið í gangi í þeim efnum. Þetta er í samhengi við það sem hv. þingmaður sagði um óvissuna eða ófyrirsjáanleika hér. Við höfum í fyrsta lagi lagt talsverða vinnu í það með Stjórnarráðinu að bæta samskiptin og upplýsingaflæðið milli Stjórnarráðsins og Alþingis, svo sem með reglubundnum fundum forsætisráðherra með formönnum þingflokka og forsætisnefnd, með því að þingmálaskrá ríkisstjórnar sé raunverulegt plagg o.s.frv. Í öðru lagi rúllum við nú á undan okkur að jafnaði þriggja vikna áætlun um starfið, næstu þrjár vikur sem í hönd fara. Í þriðja lagi eru formönnum þingflokka yfirleitt alltaf send drög að dagskrá næsta þingfundar á föstudögum fyrir í hönd farandi mánudag og jafnóðum eftir því sem vikan líður. Margt af þessu tagi hefur verið gert einmitt í því skyni að reyna að auka aðeins fyrirsjáanleikann (Forseti hringir.) og það vona ég að hv. þingmenn eða a.m.k. formenn þingflokka geti staðfest.