151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:52]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Það er best að ég segi ekki að ég ætli ekki að lengja þessa umræðu mikið því að enn er ósýnt um það hvernig mér tækist að standa við það. En ég kem fyrst og fremst til að þakka fyrir ágæt skoðanaskipti og gagnlega umræðu þó að hún hafi að talsverðu leyti fjallað um störf okkar almennt og kannski ekki mikið um einstök atriði þessa frumvarps sem er þó andlag hennar og ágætistilefni til að skiptast á skoðunum um störf þingsins og hvað megi mögulega betur fara í þeim efnum. Það höfum við gert í dag í málefnalegri umræðu sem er að mínu mati ágætissýnishorn af því hvernig gott er að ræða saman um hlutina.

Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar við ræðum þetta að hafa í huga að Alþingi er margt í senn því að Alþingi er auðvitað miklu meira en bara löggjafi. Þetta er ekki bara framleiðsla frá kl. 8–16 á einhverjum efnislegum afurðum, lögum, mikilvægt sem það að sjálfsögðu er. Alþingi er náttúrlega ekki síður aðalvettvangur stjórnmála- og þjóðmálaumræðu í landinu. Þetta er mikilvægasti ræðustóll Íslands. Því fylgja í sjálfu sér völd og áhrif að ná kjöri hingað inn á Alþingi og fá aðgang að þessum stól svo að eitthvað sé nú nefnt í því sambandi og mér verður hugsað til hv. þm. Ingu Sæland sem minnir stundum á það. Þegar hún stendur hér og talar af tilfinningu um sín hjartans mál og hugðarefni þá undirstrikar hún það. Hún er að nota þennan mikilvæga ræðustól sem vettvang.

Ég er ósammála því, hef aðra sýn á þá hluti en hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson, að þeir sem eru í minni hluta með sín sjónarmið séu hér valdalausir, hvað þá áhrifalausir. Ég hef nokkra reynslu því að af þeim bráðum 38 árum sem ég hef verið á Alþingi hef ég líklega verið 26–27 ár í minni hluta en restina af tímanum, einhver tíu, ellefu ár, ýmist ráðherra eða þá tilheyrandi meiri hluta sem forseti Alþingis. Menn hafa áhrif með svo margvíslegum hætti öðrum en þeim einum að ná sínu fram, að niðurstaða máls verði efnislega eins og þeir einir eða þeir og fámennur hópur í kringum þá vilja. Þá eru menn komnir á dálitlar villigötur ef þeir líta á það sem markmiðið vegna þess að þegar upp er staðið er Alþingi lýðræðisleg fulltrúasamkoma. Það liggur í eðli máls að það er meiri hlutinn sem ræður að lokum efnislegri niðurstöðu mála ef menn verða ekki sammála. En það er líka rétt að það er gríðarlega mikilvægt að tryggja stöðu og réttindi minni hlutans, að hann komi sínum sjónarmiðum að, að hann geti reynt að hafa áhrif á gang mála, og á hann sé hlustað og allt þar fram eftir götunum.

Eitt tækið er ræðustóllinn, eitt tækið er að halda innblásnar ræður, og þess vegna stundum langar, en mitt mat er það að miklu heppilegra tæki til að allir hafi sín áhrif sé að vinna mál af meiri elju til samkomulags í nefndum þingsins og þar eigi að beina sjónum að því. Að mínu mati á það að vera mjög mikilvægur útgangspunktur vinnu í vandasömum málum, að reyna og leggja á sig við að ná saman. Svo tekst það aldrei alveg eins og við vitum, stundum er of langt á milli, og þá hefur það bara sinn gang. Þá verður að grípa til þess að það sé þá þingviljinn, meiri hlutinn, sem að lokum ráði ferðinni.

Ég lít svo á að eitt meginhlutverk og eiginlega mikilvægasta einstaka hlutverk forseta Alþingis á hverjum tíma sé að leggja sig fram um það að þingviljinn líti dagsins ljós og nái fram að ganga, að niðurstaðan sé kölluð fram með skoðanaskiptum og umræðum og öllu því sem lýðræðið felur í sér að þessu leyti en að lokum sé það vilji þingsins sem fái að birtast í hverju máli. Þá þurfa þeir sem tilheyra minni hluta, eru í stjórnarandstöðu, líka stundum sjálfir svolítið að velja þá aðferð sem þeir telja að muni skila sér og sínum sjónarmiðum mestu. Er það bara hér úr stólnum, að halda harðar ræður um sjónarmið sín og bjóða ekki upp á neinar málamiðlanir? Það er vel þekkt aðferð og getur svo sem skilað sínu. En mín reynsla er sú að menn hafi meiri áhrif með því að vinna af elju t.d. í þingnefndum og reyna að fá þar tekið tillit til sinna sjónarmiða, koma að einhverju leyti sínum áherslum að í gegnum það sem verður niðurstaðan í þinginu vegna þess að hin leiðin er yfirleitt ávísun á það að þú, með þín sjónarmið, ert ofurliði borinn og atkvæði annarra ráða niðurstöðunni. Ef ég ætti að stinga upp á einhverju sem ég teldi að ætti að gefa meiri gaum að og skoða betur þá væri það það. Það væri að reyna með einhverjum hætti — aðallega þó bara með andrúmsloftinu og vinnubrögðunum, en eftir atvikum geta reglur þar að einhverju leyti hjálpað til — að leggja enn þá meiri áherslu á mikilvægi þess að menn geri heiðarlega tilraun til að ná saman áður en mál eru send inn til afgreiðslu. Og þannig tel ég mig á köflum hafa haft miklu meiri áhrif sem duglegur, ef ég má segja það þótt mér sé málið skylt, nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd á löngu árabili eða velferðarnefnd eða hvað það var, með því að vera eljusamur og reyna að teygja mig svolítið í átt til annarra en hafa um leið áhrif fyrir hönd minna sjónarmiða, frekar en endilega með því að halda hér miklar ræður og hef ég þó oft og iðulega verið fyrirferðarmikill í þessum ræðustóli.

Hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson kom inn á nokkuð sem ég nefndi líka aðeins og er alveg rétt og ég fór aðeins yfir það í mínu máli: Það er svo margt sem þarf að koma til. Ef við erum að tala um að gera vinnubrögðin að þessu leyti agaðri, skilvirkari og auka fyrirsjáanleikann í þessu þá þarf margt að leggjast saman og sumt af því eru hlutir sem Alþingi hefur ekki eitt í sínum höndum eins og það að mál sem framkvæmdarvaldið vill láta Alþingi fjalla um séu vel og vandlega undirbúin og komi tímanlega inn, að þingmálaskrá ríkisstjórnar sé í senn raunhæft plagg en ekki einhver óskalisti og að hún standi, að málin berist til þingsins á þeim tíma sem reikna má með. Það skiptir t.d. máli í næstu umferð þegar Alþingi sjálft og þingnefndirnar móta sínar starfsáætlanir. Þær verða um leið raunhæfari ef svona agi kemst á. Þarna hefur okkur miðað áfram, það er ekki nokkur vafi. En betur má sjálfsagt gera.

Það er kannski hættulegt að nefna ræðutímann en þó hafa ágætar hugleiðingar verið hér uppi um hann og margir hafa nefnt þá leið sem er almennt farin í mörgum þjóðþingunum í kringum okkur, þar er einfaldlega reynt að ná samkomulagi um það fyrir fram og áætla þann tíma sem sé rúmur eða ætti að vera nægur til að sjónarmið kæmu fram við umræðuna áður en viðkomandi þing gengur til afgreiðslu. Það má heita reglan víða í þingunum í kringum okkur að þessu er svona farið, oftast byggt á tillögum þeirrar fastanefndar sem hafði viðkomandi mál til umræðu. Í því sambandi skiptir máli hvort nefndin varð á einu máli eða þar eru skiptar skoðanir. Séu skoðanir skiptar og vitað að mæla þarf fyrir fleiri sjónarmiðum þá þarf auðvitað eitthvað lengri ræðutíma, augljóslega, og nefndin sem hefur þaulkannað málið og þekkir hin ólíku viðhorf er í góðu færi til að vega og meta það. Gætu menn gert tilraun í þá átt að prófa þetta fyrirkomulag oftar án þess að neinn seldi frá sér nokkurn rétt, bara einfaldlega til að láta á það reyna? Gætum við náð utan um kannski meira af umræðum um stærri mál með þessum hætti? Það væri mjög spennandi.

Ræðutími er, eins og svo margt annað í heiminum, takmörkuð gæði. Það er ekki málefnalegt að nálgast þetta þannig að við höfum ótakmarkaðan tíma, hann höfum við ekki og það skilja allir. Í sambandi við ræðutíma og málfrelsi á hér við hin gullvæga regla að réttur eins má vera ekki vera á kostnað annars. Ótakmarkaður ræðutími eins má ekki svipta aðra algerlega málfrelsinu. Þá er ekkert réttlæti í því lengur. Þess vegna erum við að tala, þegar upp er staðið, um takmörkuð gæði sem þarf einhvern veginn að skipta, þarf einhvern veginn að útdeila. Það er mikilvægt að það sé gert á málefnalegan og sanngjarnan hátt og augljóst mál að það liggur í hlutarins eðli að minni hluti hvers tíma þarf að vera vel settur að þessu leyti vegna þess að þetta er mjög mikilvægt tæki í hans höndum og engum dettur annað í hug en að gætt sé mjög vel að rétti minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, í þessum efnum. Reyndar eru innbyggð í þingsköpin ýmis öryggisákvæði sem menn horfa gjarnan fram hjá sem eru gagngert sett inn til þess að ekki sé hægt að valta yfir minni hluta, bara einn, tveir, þrír á einum eða tveimur klukkutímum, t.d. frestir sem verða að líða frá því að mál er lagt fram og þar til það er rætt milli 2. og 3. umr. o.s.frv. Ef mál koma of seint fram að vori gilda talsverðir tímafrestir sem verja að slíkt mál sé hægt að keyra í gegn í hvelli. Horfum ekki heldur fram hjá því að þrátt fyrir allt eru innbyggð í þingsköpin ýmis öryggisákvæði af þessu tagi.

Menn hafa líka verið að reyna að taka einhver skref, við getum kallað það tilraunastarfsemi, til að dreifa aðeins betur völdum og forræði hér í þinginu. Þar munar mest um þá breytingu sem var innleidd 1991 þegar Alþingi var sameinað í eina málstofu og sá andi kom inn í þingsköpin að það væri eðlilegt að fulltrúar úr minni hluta gætu verið í forystu fastanefnda þingsins eða alþjóðanefnda í einhverjum mæli, svona nokkurn veginn í samræmi við hlutfallslegan þingstyrk sinn. Og ef við skoðum 14. gr. laganna um þingsköp, stóru greinina um það hvernig kosið er í nefndir, er andi hennar alveg skýr. Þar er festur í lögin sá andi að reyna að ná samkomulagi um þetta og sýna sanngirni og dreifa völdum og ábyrgð innan vissra marka. Svo geta menn deilt um hvernig það hafi tekist á köflum og það er ekki gallalaust fyrirkomulag frekar en nokkuð annað en það er viðleitni í þessa átt.

Ég lít á þetta frumvarp sem hluta af mun stærri aðgerðaáætlun eða verkefni sem við höfum verið í og ég vil flokka undir tilraunir til umbóta í starfsemi Alþingis. Við höfum verið að gera ýmislegt í þeim efnum. Við höfum verið að efla nefndasviðið og styrkja það með viðbótarsérfræðingum. Við höfum stórbætt vinnuaðstæður þingflokkanna og fjölgað sérfræðingum og aðstoðarmönnum á þeirra vegum. Við erum að byggja eitt stykki gríðarlega stórt og mikilvægt þjónustuhús, kjarnahús fyrir starfsemi Alþingis, sem mun stórbæta vinnuaðstæður og við höfum líka verið að skoða vinnuumhverfið hérna, vinnuandrúmsloftið, og látið gera könnun fyrir okkur á því og erum að vinna úr þeim niðurstöðum núna. Við viljum auðvitað hafa hér góða og þroskaða vinnustaðamenningu og hafa Alþingi góðan vinnustað. Þess vegna tek ég undir með ýmsum ónefndum sem hér hafa sagt að þeim líði illa, taka það inn á sig, þegar menn tala starfsemi Alþingis niður eða fara um hana óþarflega dómhörðum orðum. Ég viðurkenni fúslega að margt má bæta og halda áfram að bæta í starfseminni en að uppistöðu til er Alþingi, eins og ég sé það, og hefur yfirleitt verið, góður vinnustaður og vinnur vandað verk og skilar þjóðinni góðum störfum og ég tel t.d. sérstaklega að Alþingi hafi staðið sig mjög vel núna í bráðum heilt ár að glíma við það að vinna öll sín verkefni þrátt fyrir heimsfaraldur og þurfa að bæta á sig gríðarmiklum tilfallandi og stórum málum aftur og aftur vegna þess ástands. Öllu þessu hefur Alþingi skilað vel. Er þá ekki allt í lagi að segja það og vera ánægð með það sem vel er gert? Ég held það.

En þetta frumvarp, verði það að lögum, sem ég bind að sjálfsögðu vonir við fyrir vorið, hvenær sem menn vilja hafa gildistöku þess nákvæmlega, veldur engum straumhvörfum. En það er þó að mínu mati til umtalsverðra bóta, ýmislegt sem í því er, og hjálpar til ásamt mörgu öðru sem við erum að reyna að gera til að gera þennan merka og góða vinnustað aðeins betri.