151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[16:07]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru mér ákveðin vonbrigði hvernig þetta starf hefur orðið. Ég ætla að fara aðeins betur yfir það í ræðu á eftir og ekki þreyta hæstv. forsætisráðherra meira með því. En ég sakna þess sérstaklega að við séum ekki, alla vega ekki fleiri en þeir þingmenn sem hafa áhuga á því, að ræða þjóðaratkvæðagreiðsluákvæðið sem mér þykir hæstv. forsætisráðherra hafa ákveðið að sleppa fullfljótt. Ég fer út í það í ræðu minni hér á eftir. Ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra gerir það er væntanlega sú að hún telur of mikið verk fyrir höndum til þess að tímabært sé að hafa það með í frumvarpinu; sjónarmið sem ég er ósammála en skil. Það sem ég á erfiðara með að skilja er þá hvers vegna auðlindaákvæðið er sett fram í þessum augljósa, mikla og áratugalanga ágreiningi, þegar ekki er einu sinni skýrt hverjar beinar afleiðingar af setningu þessa ákvæðis verða á núgildandi kerfi. Auðvitað erum við mikið til að tala um fiskveiðiauðlindina vegna þess að hún er rót ágreiningsins sem veldur því að þetta ákvæði „þvælist“ svo fyrir umræðunni.