151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin 20. janúar sl.

[13:56]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Maður gleymir sér við að hlusta á þessar góðu ræður. Ég vil, eins og fleiri, þakka hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur fyrir að hefja máls á þessu málefni vegna þess að Bandaríkin hafa verið, eru og verða einn af okkar traustustu bandamönnum og vinum. Við þurfum að sæta færis nú þegar að þessum kosningum afstöðnum og bæta sambandið enn frekar og auka samstarfið. Þingmaðurinn fór ágætlega yfir viðburði síðustu mánaða og ára í valdatíð Trumps og svo nýafstaðnar kosningar og hvað stjórn Bidens hefur í raun afkastað miklu á mjög stuttum tíma, undið ofan af mörgum slæmum ákvörðunum, að mínu mati.

Í þessum valdaskiptum felast stórkostleg tækifæri fyrir Ísland. Þar þurfum við náttúrlega að einbeita okkur, og ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra er staddur þar. Margir hafa nefnt loftslagsmálin og ég tek undir það. Ég vil spyrja í því samhengi hv. þingmann, en hún nefndi mögulegan loftslagssamning á milli ríkjanna, og heyra aðeins meira um á hvaða plani hann gæti orðið. Einnig vil ég spyrja hæstv. ráðherra um mögulegan fríverslunarsamning við Bandaríkin. Hver er staðan þar? Sér hann fyrir sér einhverjar hreyfingar á því máli á næstunni?

Tíminn er náttúrlega allt of skammur þegar af mörgu er að taka. En eins og fleiri fagna ég því að Bandaríkjamenn séu aftur komnir inn í Parísarsamkomulagið og tek undir með hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni varðandi aukna samvinnu við málefni hafsins. Ég get væntanlega rætt um fleira í næstu ræðu.