151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[15:22]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og fleiri byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir góða skýrslu. Hún er mjög yfirgripsmikil og í henni eru ágætar tölulegar upplýsingar og gott yfirlit yfir flest það sem snýr að okkar utanríkisviðskiptum. Ég vil þó líka taka undir með fleirum, ég hefði áhuga á að fá skýrslu eða samantekt frá ráðuneytinu í framhaldinu þar sem væri frekari greining á tækifærum Íslands til framtíðar. Það er mikil hreyfing á mörkuðum og í þeirri skýrslu sem við ræðum hér er einmitt sérstakur kafli um nýmarkaðina. Hv. þm. Smári McCarthy nefndi t.d. Afríku og mikinn vöxt þar og Asíu og fleiri svæði í heiminum. Þó að það sé kannski ekki endilega borðleggjandi núna er mikill vöxtur á þessum svæðum sem við þurfum í það minnsta að fylgjast vel með og við þurfum að greina okkar tækifæri til lengri tíma.

Alþjóðleg viðskipti, það þarf kannski ekkert að orðlengja það, eru náttúrlega undirstaða hagvaxtar á Íslandi og velferðar. Við þurfum stöðugt að vera vakandi fyrir nýjum mörkuðum og tækifærum en á sama tíma að sinna okkar viðskiptavinum og þeim mörkuðum sem við höfum nú þegar unnið. Mig langaði einmitt líka til að taka undir spurningu til hæstv. ráðherra varðandi það hvort hann telur þörf á að opna fleiri viðskiptaskrifstofur, ekki sendiráð heldur viðskiptaskrifstofur, vítt og breitt um heiminn. Ég held að það sé eitthvað sem við þyrftum að skoða og meta þörfina á því. Kannski hefur það þegar verið gert. Það væri áhugavert að heyra af því.

Ég hafði hugsað mér að rýna aðeins 6. kafla skýrslunnar en í honum er fjallað um aðra fríverslunarsamninga en þá sem við höfum gert við EFTA, þ.e. tvíhliða fríverslunarsamninga sem við höfum gert við ríki eins og Færeyjar, Grænland og Kína. Fríverslunarsamningur okkar við Kína gekk í gildi — ég hef skrifað það hér — 1. júlí 2014. Hann felur í sér niðurfellingu á tollum á flestum útflutningsafurðum Íslendinga. Samkvæmt þeim tölulegu upplýsingum sem fylgja í skýrslunni sést vel að viðskipti okkar við Kína hafa aukist nokkuð síðan samningurinn gekk í gildi og kínverskum ferðamönnum hefur fjölgað verulega hingað til lands. Áður en Covid-faraldurinn skall á var búist við því að hingað myndi hefjast beint flug frá Kína sem hefði enn aukið straum kínverskra ferðamanna til Íslands. Við þurfum bara að sjá, þegar þessum faraldri fer að slota, hvernig það þróast.

Tíminn er náttúrlega bara strax að verða búinn og maður er varla byrjaður. Í stuttu máli langar mig til að heyra frá ráðherra: Erum við að fullnýta þau tækifæri sem felast í samningnum við Kína? Sér ráðherra fyrir sér að við þurfum að grípa til einhverra sérstakra aðgerða til þess að nýta hann kannski enn betur? Mig langaði til að ræða loftferðasamningana, sérstaklega stöðu samningsins við Japan, mögulegs samnings, og einnig viðskipti við Grænland. (Forseti hringir.) Svona verður maður að gera þetta á hundavaði; afsakið, hæstv. forseti.